Safnað verður saman heyrúlluplasti frá bændum þann13. febrúar n.k.

Leiðbeiningar um frágang heyrúlluplasts til endurvinnslu.     Samkvæmt mengunarreglugerð er urðun plasts og brennsla heima á bæjum með öllu óheimil. Íslenska gámafélagið mun þess vegna safna saman plasti frá bændum og koma því í endurvinnslu. Fyrsta ferð mun verða farin þriðjudaginn 13. febrúar næst komandi.    

GSM-væðing á Snæfellsnesi

Eins og kunnugt er hefur Fjarskiptastofnun boðið út styrkingu GSM kefisins á landsbyggðinni.  Verkefnið verður fjármagnað með hluta af "símapeningunum" svokölluðu.  Þetta er afar þakkarvert og jafnframt brýnt verkefni vegna þess að GSM símar eru orðnir helsta öryggistækið í fjarskiptum hjá almennum vegfarendum.  Forgangsröðun í verkefninu vekur að hluta til nokkra athygli.  Snæfellingar þekkja það, að frá Eiði í Grundarfirði að Vegamótum er mjög stopult GSM símasamband og reyndar er útsending RÚV á þessu svæði einnig veik.  Á þessum vegarkafla eru oft mjög erfið veður og geta aðstæður verið varasamar þegar verst stendur á.  Samt sem áður var þessi vegarkafli ekki með í fyrsta útboði þessa verkefnis. 

Rafmagnsleysi á Snæfellsnesi

Rafmagn fór af Snæfellsnesi um kl. 21:30 í gærkvöldi þegar 66 kV flutningslína frá Vatnshömrum í Borgarfirði bilaði, straumlaust var einnig á Skógarströnd og Eyja-, Miklaholts- og Kolbeinsstaðahreppi. Lengsta straumleysið var á hluta af Staðarsveitarlínu og Arnarstapa og Hellnum. Díselvélar voru keyrðar í Stykkishólmi, Grundarfirði og Ólafsvík. Skammta þurfti rafmagn í Grundarfirði, Ólafsvík, Hellissandi og Rifi.  

Þorrablót

42. Þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar verður haldið næstkomandi laugardag. Langar og strangar æfingar hafa átt sér stað hjá góðum hópi fólks sem lagt hefur sig fram við að setja saman skemmtiannál um það helsta sem átt hefur sér stað í Grundarfirði síðasta ár. Ég held að allir sem hafa tekið þátt í þorrablótsnefnd séu mér sammála um að þetta er með því skemmtilegra sem við höfum tekið okkur fyrir hendur.  

Víða urðu talsverðar skemmdir í ofsaveðrinu 23. desember 2006

Bæjarskrifstofan hefur undanfarnar vikur tekið við tilkynningum um skemmdir sem urðu í ofsaveðrinu á Þorláksmessu.  Ljóst er að víða hefur orðið talsverð eyðilegging og í öllum tilfellum eru óþægindi og fyrirhöfn í nokkrum mæli.  Rúðubrot eru áberandi bæði á bílum og í húsum.  Þó nokkur tilfelli eru um skemmdir á lakki bíla og sömuleiðis á veggjum og þökum húsa.  Tjón hafa verið tilkynnt við eftirtaldar götur í Grundarfirði:  Borgarbraut, Eyrar-veg, Fagurhól, Fagurhólstún, Fellasneið, Grundargötu, Hrannarstíg, Nesveg, Smiðjustíg, Sólvelli, Sæból og Ölkelduveg.  Þetta liggur fyrir samkvæmt þeim tilkynningum sem borist hafa og ljóst að nyrðri og vestari hlutar bæjarins hafa orðið fyrir allnokkru tjóni.  Í dreifbýlinu er vitað um skemmdir á bæjunum Kverná og Nausti I.  Þeir sem lentu í þessum skakkaföllum, hafa leitað til

Undirbúningur að byggingu íþróttamiðstöðvar hafinn

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar þ. 25. janúar sl. var samþykkt að halda áfram undirbúningsferli að bygginu íþróttamiðstöðvar í bænum.  Samþykkt var að kalla til ráðgjafar "rýnihóp" sem ætlað er að laða fram sem flest sjónarmið um það hvernig starfsemi og fyrirkomulag verður í íþróttamiðstöðinni.  Gert er ráð fyrir að í rýnihópnum verði m.a. fulltrúar eftirtalinna aðila; leik- og grunnskóla, fjölbrautaskóla, eldri borgara, ungmennafélagsins, almennings, ferðaþjónustunnar, fræðslu- og menningarmálanefndar, íþrótta- og tómstundanefndar, bæjarstjórnar og bæjarstjóri.  Gert er ráð fyrir að Hrönn Pétursdóttir, sem var verkefnisstjóri við mótun og uppbyggingu fjölbrautaskólans, muni vinna með rýnihópnum að verkefninu.

Grundarfjarðarhöfn er orðin tollhöfn

Ánægjulegur áfangi hefur náðst í starfsemi Grundarfjarðarhafnar.  Frá og með 1. janúar 2007 er höfnin skilgreind sem tollhöfn.  Fyrir 2 - 3 árum var farið að sækja um það til fjármálaráðherra að höfnin öðlaðist þennan sess.  Málið tafðist nokkuð á meðan reglugerð um vörslu og tollmeðferð vöru var í endurskoðun, en nú er niðurstaða fengin.  Þetta mun gagnast útflutningsfyrirtækjum í Grundarfirði og einnig efla stöðu hafnarinnar sem inn- og útflutningshafnar.  Verið er að kanna til hlýtar þessa dagana á hvern hátt starfsemi hafnarinnar verður sem best aðlöguð að þessari nýju stöðu.  Hafnarstjórninni og hafnarverðinum er óskað til hamingju með þennan áfanga.

Tónlistarskólinn

 Hjá tónlistarskólanum er mikið að gerast á næstunni og nú er í gangi miðvetrarmat. Í febrúar er svo þemavika og verður þemað að þessu sinni afrísk tónlist, síðan í lok febrúar verður skólamót tónlistarskólanna á vesturlandi, þar sem að Akranes, Borgarnes, Ólafsvík, Grundarfjörður Stykkishólmur og Búðardalur koma saman og kallast mótið „TónVest“. Mótið verður haldið í Stykkishólmi þetta árið og eru um það bil 10-12 nemendur frá tónlistarskólanum á Grundarfirði taka þátt.  

Mikil uppbygging

Það er óhætt að segja að það sé mikil uppbygging í Grundarfirði þessa dagana en nú eru um 22 nýjar íbúðir í byggingu eða á teikniborðinu í bænum. Það eru þrjú verktakafyrirtæki sem vinna að byggingu húsanna, en það eru Landsmenn byggingarverktakar ehf., Stafna á milli ehf. og Nesbyggð ehf. Í myndabankanum má sjá myndir frá framkvæmdum. Hægt er að smella hér til að komast beint að myndunum.  

Myndir

Það eru komnar myndir inn í myndabankann frá 30 ára afmæli leikskólans sem var 4. janúar síðastliðinn. Hér má sjá myndirnar.