Geiri,Heiðar og Garðar verðlaunahafar í kúluvarpi.
Heiðar Geirmundsson Grundfirðingurinn sterki lét sig ekki muna um að setja tvö héraðsmet á hinu árlega Steinþórsmóti UMFG sem haldið var á Grundarfjarðarvelli, mánudaginn 29. ágúst. Í kúluvarpi bætti hann met afabróður síns Jóns Péturssonar sem sett var árið 1968. Heiðar kastaði 16,14 metra en gamla metið var 15,98. Í sleggjukasti hefur Heiðar keppt að því um hríð að bæta þriggja ára gamalt met föður síns Geirmundar Vilhjálmssonar það hefur hann gert tvívegis í sumar, fyrst á Héraðsmóti í Stykkishólmi miðvikudaginn 24. ágúst en þá kastaði hann 43,70 m og bætti síðan um betur á Steinþórsmótinu er hann kastaði 45,55 m. Þess má geta að þegar Geirmundur setti metið fyrir þremur árum var hann að bæta 30 ára gamalt met sem Jón Pétursson átti einnig.