Sveitarstjórnarkosningum 2010 lokið - L-listinn með meirihluta í Grundarfjarðarbæ

L-listi Samstöðu fékk meirihluta í sveitarstjórnarkosningunum í gær.  L-listinn fékk 294 atkvæði og fjóra menn kjörna.  D-listi sjálfstæðismanna og óháðra fékk 235 atkvæði og þrjá menn kjörna.  Ný bæjarstjórn tekur við þ. 13. júní n.k.   Eftirtaldir fulltrúar L og D lista skipa nýju bæjarstjórnina:   L - Sigurborg Kr. HannesdóttirL - Gísli ÓlafssonL - Ásthildur Erlingsdóttir L - Eyþór Garðarsson D - Þórður MagnússonD - Rósa GuðmundsdóttirD - Þórey Jónsdóttir

Útskriftarhátíð leikskólans

    Í gær var útskriftarhátið elstu nemendanna í Leikskólanum Sólvöllum. Þetta eru Arnar Breki, Bjargey, Gabríel Ómar, Íris Birta, Leó, Margrét Helga, Ólafur Birgir og Sóldís Hind.  Nemendur sungu og lesin voru nokkur gullkorn.  Þá settu nemendur upp útskriftarhatta sem þau höfðu málað og fengu Ferlimöppurnar sínar afhentar. Fulltúar frá Bæjarstjórn og Foreldrafélaginu afhentu nemendum rósir. Síðan var farið í skrúðgöngu í Kaffi 59 í flatbökuveislu.  Eitt gullkorn: Við matarborðið voru börnin að ræða helsta gagn og nauðsynjar.  Ein stelpan segir allt í einu ,,það er hægt að prenta peninga".  ,,Já", sagði þá einn strákurinn ,,maður fer bara á peningar.is". Hér má sjá fleiri myndir frá hátíðinni.

Auglýsing um kjörfund og talningu atkvæða

Kjörfundur vegna sveitarstjórnarkosninga verður haldinn laugardaginn 29. maí n.k. Kjörstaður er í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Kjörfundur stendur frá kl. 10:00 til kl. 22:00. Athygli er vakin á því að kjósendur geta þurft að gera kjörstjórn grein fyrir sér með því að framvísa persónuskilríkjum með mynd. Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum í Samkomuhúsinu og hefst um það bil klukkustund eftir að kjörfundi lýkur.    Grundarfirði, 25. maí 2010 f.h. kjörstjórnar Grundarfjarðarbæjar Mjöll Guðjónsdóttir, formaður  

Sameiginlegur framboðsfundur

Sameiginlegur framboðsfundur framboða D og L lista til bæjarstjórnar verður í kvöld í samkomuhúsi Grundarfjarðar. Hefst fundurinn kl. 20:00 og mun hann standa til 21:30 .

Leikskólinn Sólvellir

      Í gær miðvikudaginn 26. maí fóru elstu nemendur Leikskólans Sólvalla í Ævintýraleit (elstubarnaferð). Að venju var farið út að Bergi og stóð ferðin yfir frá kl. 9:00 - 19:00. 

Vinabæjarheimsókn frá Paimpol 25. maí 2010

  Góðir gestir frá Frakklandi eru í heimsókn í Grundarfirði.  Þetta er fólk frá Paimpol á Bretagne skaga sem er vinabær Grundarfjarðar.  Fulltrúi frá bæjarstjórninni í Paimpol er með í för ásamt forsvarsfólki "Grundapol" sem eru samtök vina Grundarfjarðar.  Í tilefni af heimsókninni var vígður garður sem ætlaður er sem framtíðar útivistarsvæði bæjarins og var honum gefið heitið "Paimpol garður".  Gestirnir fóru að bretónska krossinum, voru við minningarathöfn í Grundarfjarðarkirkju um franska sjómenn sem fórust við Íslandsstrendur sem sr. Aðalsteinn Þorvaldsson annaðist ásamt organista og með aðstoð frá frönskum skiptinema, undirrituð var yfirlýsing um vinabæjarsambandið, heimsóttu GRun hf. og fóru í hringferð um Snæfellsnesið.  Frakkarnir buðu fulltrúum bæjarstjórnar og fleirum í móttöku í Hótel Framnesi um kvöldið.  Hópurinn mun svo halda frá Grundarfirði í fyrramálið í hringferð um landið. Hér má sjá fleiri myndir.  

Frí frá æfingum

Í þessari viku verður frí frá æfingum á vegum UMFG nema að þjálfarar gefi annað upp. Æfingar hefjast aftur 1 júní.   Stjórn UMFG 

Fjórtán stúdentar útskrifast frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Skessuhorn 23. maí 2010: Föstudaginn 21. maí brautskráði Fjölbrautaskóli Snæfellinga 14 nemendur, alla með stúdentspróf. Af  náttúrufræðibraut útskrifuðust Lilja Margrét Riedel, Sveinbjörn Ingi Pálsson og Sæbjörg Lára Másdóttir. Af félagsfræðabraut útskrifuðust Anna Júlía Skúladóttir, Ásthildur E. Erlingsdóttir, Egill Guðnason, Erla Lind Þórisdóttir, Eva Lind Guðmundsdóttir, Guðmundur Haraldsson, Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir, Lárus Gohar Kazmi, Ólafur Hrafn Magnússon, Steinar Darri Emilsson og Sunna Björk Skarphéðinsdóttir. 

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins í Grundarfirði

 Skessuhorn 22. maí 2010: Fyrstu gestirnir koma upp nýja landganginn. Ljósm. sk.Klukkan 11 í morgun kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Grundarfjarðar. Það nefnist Athena, er ítalskt en farþegar þess enskir. Áætluð er koma 13 skipa í sumar, flest munu eiga viðdvöl í júlí, eða sjö skip og þar á meðal tvö helgina sem bæjarhátíðin Á góðri stundu verður haldin í lok mánaðarins. Síðasta skipið kemur síðan 12. september.  Runólfur Guðmundsson formaður hafnarstjórnar tók á móti farþegum við komuna í Grundarfjörð í morgun og færði fyrstu gestunum sem stigu á land á nýja hafnarsvæðið blóm og gjafir. Með skipinu eru 540 farþegar og eru 300 þeirra nú í skoðunarferð um Snæfellsnes á rútum. Skipið lætur síðan úr höfn klukkan 23 í kvöld eftir 12 tíma stopp. Áður en haldið verður um borð gefst farþegum kostur á að njóta góða veðursins, fara í verslanir, kaupa handverk, veitingar og annað sem í boði er fyrir ferðamenn í Grundarfirði.

Opnunartími sundlaugar yfir Hvítasunnuhelgina

Laugardaginn 22. maí er opið frá klukkan 13:00 - 17:00, sunnudaginn 23. maí er lokað og mánudaginn 24. maí er opið frá klukkan 13:00 - 17:00.