Snæfríður - Fyrirtækjaheimsóknir

Næstkomandi fimmtudag, 3. júlí 2014, kl 17:00 ætlar Snæfríður að heimsækja Frystiklefann á Rifi og kynnast þeirri starfsemi sem er þar starfrækt. Á sama tíma ætla Vatnshellir og Glacier Hiking, nýleg fyrirtæki í Snæfellsbæ, að kynna þá starfsemi sem þeir eru með. Við hvetjum allt ungt fólk og áhugasama til þess að nýta tækifærið og mæta og kynnast betur þessum spennandi fyrirtækjum.  

Sumarnámskeið 2014

Við viljum minna á glæsileg sumarnámskeið fyrir elsta árgang leikskólans og yngri árganga grunnskólans. Ólöf Rut Halldórsdóttir hefur umsjón með námskeiðunum þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Skráningareyðublöð er hægt að nálgast á heimasíðu bæjarins og á bæjarskrifstofunni. Nauðsynlegt er að skráning fari fram fyrir kl 12.00 á föstudegi eigi barn að byrja á námskeiði á mánudegi í vikunni á eftir. Systkinaafsláttur fyrir 2. barn er 35% og fyrir þriðja barn 70%. 

Að lesa í fríinu

Foreldrar hafa mikil áhrif á hvort börnin þeirra njóta þess að lesa. Leitið á almenningabókasöfnin og veljið úr úrvali lesefnis. Komið á bókasafnið í Sögumiðstöðinni. Afgreiðsla á þjónustutíma Upplýsingamiðstöðvar. Alltaf velkomin. Lesum í hljóði, lesum saman, lesum fyrir hvert annað. Krakkar! Búum til okkar eigin kvikmynd í huganum.   

Fréttatilkynning frá FSN

Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa haustið 2004 og hefur því lokið sínu 10. starfsári. Nú í vor útskrifuðust 23 nemendur frá skólanum og fjöldi útskrifaðra nemenda er þá kominn yfir 240.     Á næstu haustönn er hugmyndin að minnast þessara tímamóta með margvíslegum hætti. Eitt af því sem boðið verður upp á í september er að bæði einstaklingar sem og hópar komi í heimsókn á skólatíma og fylgist með og fái kynningu á skólastarfinu. Þeir sem vilja þekkjast þetta boð eru beðnir um að hafa samband við skólann og við finnum heppilegan tíma fyrir heimsókn. Snemma í október verður síðan boðið til fagnaðar þar sem velunnarar skólans, fyrrverandi og núverandi nemendur og starfsfólk kemur saman til þess að minnast þessara tímamóta.

Aðstoðarskólastjóri

Laus er staða aðstoðarskólastjóra við Grunnskóla Grundarfjarðar frá og með 1. ágúst 2014.   Í Grunnskóla Grundarfjarðar eru nú tæplega 100 nemendur og 22 starfsmenn. Nánari upplýsingar um skólastarfið má finna á heimasíðu skólans, www.grundo.is.  

Bæjarstjórnarfundur

175. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í ráðhúsinu, miðvikudaginn 18. júní 2014, kl. 16:30.   Dagskrá:

Spennandi námskeið

Námskeiðið er fyrir eldri og elsta hóp (árg. 2001-2004). Byrjum á hugstormun og hugmyndavinnu og förum í gegnum ferlið frá hugmynd að framkvæmd og lokaútkomu. Kynnumst einnig hugtakinu DIY (Do It Yourself), leitum hugmynda og hugstormum um okkar eigin útfærslur og leiðir, þar sem áhersla er á endurnýtingu og skapandi hugsun. Krakkarnir eru hvattir til þess að koma með eigin hugmyndir og óskir og unnið er út frá því.  Fjölmargar leiðir í boði í útfærslum á hugmyndum, til dæmis; perlugerð, endurnýting, notkun textílefna (hand– og vélsaumað), plexígler, prjón og hekl, tálgun og margt margt fleira!  

Háls-, nef og eyrnalæknir

Þórir Bergmundsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilsugæslunni Grundarfirði föstudaginn 20. júní  n.k.   Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma  432-1350    

Fréttir af sumarnámskeiðum

Það er búið að vera mikið líf og fjör á námskeiðinu smíðar og sköpun síðastliðnar tvær vikur. Krakkarnir hafa hannað, smíðað, tálgað og föndrað ýmsa flotta og skemmtilega muni. Þriðjudaginn 10. júní fór yngri hópur í bæjarferð þar sem kíkt var á bókasafnið og víkingarnir heimsóttir. Við vorum svo heppin að hitta nokkra víkinga sem voru með ýmsa muni með sér sem börnin fengu að skoða og prófa. Þau fræddust um víkingana, vopn þeirra, klæðnað og annað og voru ótrúlega áhugasöm um allt sem víkingarnir höfðu að segja þeim.   Næstu námskeið hefjast mánudaginn 16. júní en það er ævintýranámskeið fyrir yngri hóp (börn fædd 2005-2008) og skartgripagerð fyrir eldri og elsta hóp (börn fædd 2001-2004). Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á heimasíðu sumarnámskeiðanna www.sumarnamskeid-grf.blogspot.com.  Við minnum einnig á að skráning verður að fara fram með því að skila þar til gerðum eyðublöðum á bæjarskrifstofuna, í síðasta lagi kl.12 á föstudegi, eigi barn að byrja á námskeiði á mánudegi.   Myndir af sumarnámskeiðunum er að finna á facebooksíðu bæjarins.  

Bikarleikur á Grundarfjarðarvelli á föstudag

Í ljósi óhagstæðra vallarskilyrða á Ólafsvíkurvelli mun leikur Víkings í 16. liða úrslitum Borgunarbikar kvenna gegn Stjörnunni verða spilaður á Grundarfjarðarvelli, föstudaginn 6. júní klukkan 19:15.