- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Íþrótta- og æskulýðsnefnd Grundarfjarðarbæjar hefur í umboði bæjarstjórnar unnið að hugmyndavinnu um uppbyggingu útikennslu- og fjölskyldugarðs í Þríhyrningnum. Nú í október 2020 eru komnar fram útfærslur á hugmyndavinnu og er næsta skref að kynna þær nágrönnum, íbúum og félagasamtökum og leita eftir viðbrögðum þeirra.
Þríhyrningurinn er opið, grænt svæði inní miðri byggð. Hann markast af íbúðarhúsum við Hlíðarveg, Borgarbraut og Grundargötu og er aðkoma að honum á þessa þrjá vegu.
Þríhyrningurinn á sér merka sögu sem spannar a.m.k. vel á sjötta áratug. Kvenfélagið Gleym-mér-ei kom að uppbyggingu hans, þar var rekinn róló á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og þar var lengi leiksvæði fyrir börn. Í Þríhyrningi voru oft haldnar skemmtanir eins og t.d. á sautjánda júní. Ýmsar útfærslur hafa verið á svæðinu í gegnum árin, en einnig áform um frekari uppbyggingu, sem ekki gengu eftir. Á meðfylgjandi myndum má sjá nokkrar af myndum Bærings Cecilssonar af lífinu á róló á árum áður. Smellið á myndirnar til að stækka þær.
Draumurinn er að Þríhyrningurinn öðlist aftur þann sess að vera sameign og sælureitur bæjarbúa, að hann verði meira nýttur og að þar verði aðstaða sem hentar íbúum á öllum aldri.
Í nýju aðalskipulagi Grundarfjarðar er gert ráð fyrir útikennslustofu fyrir leik- og grunnskóla í Þríhyrningi. Skólarnir nota reyndar svæðið talsvert, nú þegar.
Íþrótta- og æskulýðsnefnd átti sl. vetur opinn fund með íbúum og fund með félagasamtökum um uppbyggingu svæðisins og fékk góðar viðtökur. Margar góðar hugmyndir komu fram um hvað ætti að vera í Þríhyrningi og vann nefndin úr þeim. Í ágúst fékk nefndin til liðs við sig arkitekt til að vinna gróflega úr þeim efnivið sem fram var kominn og í september hélt nefndin fund með fulltrúum félagasamtaka og með kennurum leik- og grunnskóla, vegna útikennslu. Vinnan var svo kynnt bæjarstjórn á fundi 8. október 2020 og fól bæjarstjórn nefndinni að ljúka útfærslu á þeim nótum og leggja fram endanlegar tillögur.
Útgangspunkturinn er að nýta sem best sól og skjól, það hve garðurinn er vel lagaður og í „faðmi“ nærliggjandi húsa. Mikilvægt er að taka tillit til þess að svæðið liggur upp við íbúðarbyggð. Hugmyndir ganga út á að þar verði útikennslustofa með litlu sviði og setsvæði, útigrill og nestisborð, náttúrulegt leiksvæði með einföldum lausnum, skilti sem segir sögu garðsins/gamla róló og að uppbygging garðsins sé samfélagslegt samvinnuverkefni.
Smellið hér til að sjá tillögurnar.
Næstu skref eru að kynna hugmyndirnar fyrir íbúum nærliggjandi húsa, fyrir íbúum og félagasamtökum og ljúka útfærslunni. Ljóst er að þetta er uppbyggingarverkefni til nokkurra ára. Verkefninu þarf að áfangaskipta og það er háð fyrirvara um fjármögnun hverju sinni. Góð viðbrögð íbúa og félagasamtaka við hugmyndinni um uppbyggingu eru hins vegar gott veganesti inní næstu áfanga.
Setbekkir og borð voru færðir inní Þríhyrninginn nú í október. Það er kjörið að taka göngutúr í Þríhyrninginn, taka með nesti og nýta aðstöðuna til að hitta vini og fjölskyldu, með góðri persónufjarlægð, á þessum sérstæðu tímum 2020.
Til gamans má hér sjá teiknaðar tillögumyndir frá 1966, en þær gerði Vilhjálmur Sigtryggsson. Hann var á þeim tíma starfsmaður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.
Tillöguteikningar gerðar af Inga Hans Jónssyni:
Teiknistofa Hauks Viktorssonar, teikning frá 1985:
Teikning frá 1992, Pétur H. Jónsson arkitekt: