Telja að vel hafi tekist til í starfsemi Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Almennt hefur tekist vel til í starfsemi Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN) og að fjöldi nemenda hafi orðið nokkru meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem bendi til þess að skólinn hafi skapað sér tiltrú og uppfyllt þær væntingar sem til hans voru gerðar. Þetta kemur fram í úttekt sem gerð hefur verið á starfsemi skólans. Nýlega er lokið úttekt sem menntamálaráðuneyti lét gera á Fjölbrautaskóla Snæfellinga (FSN). Úttektin var unnin af Trausta Þorsteinssyni frá skólaþróunar-sviði Háskólans á Akureyri og Ásrúnu Matthíasdóttur frá kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík. Miðaðist úttektin við fyrstu þrjú árin í starfsemi skólans en hann tók tók til starfa haustið 2004. Frétt á vef Mbl.is

Rökkurdagar verða settir í kvöld

Rökkurdagar verða settir í kvöld, 1. nóvember kl 20:00, á Hótel Framnesi. Þar verður opnuð ljósmyndasýning Sverris Karlssonar. Sverrir er áhugaljósmyndari hér í Grundarfirði og til gamans má geta þess að hann er með heimasíðu sem er áhugavert að skoða.  http://www.123.is/sverrirk/default.aspx?page

Dagur íslenskrar tungu í grunnskólanum.

Nemendur grunnskólans verða með dagskrá í íþróttahúsinu, föstudaginn 16. nóvember, kl. 11.00 - 12.30. Dagskráin verður helguð minningu Jónasar Hallgrímssonar í tilefni af tveggja alda fæðingarafmæli skáldsins. Allir hjartanlega velkomnir.

Síldarævintýri á Grundarfirði

 Ekkert lát er á síldveiðinni í Grundarfirði og verður sára lítillar síldar vart á hefðbundinni veiðislóð út af Suðurströndinni. Nú eru um þrjár vikur síðan síldin fannst í Grundarfirði, og hafa síldarskipin hvað eftir annað fyllt sig og sigla svo með aflann til Austfjarðahafna og Vestmannaeyja. Þegar síldin er næst landi, eru skipin að veiðum rétt utan við hafnarminnið í Grundarfirði og þar fékk eitt skipið ljósastaur í veiðarfærin, sem sennilega hefur brotnað af bryggju í óveðri.-   Frétt á Vísir

Bókin Fólkið í Skessuhorni komin út

  29. október 2007 Í tilefni þess að héraðsfréttablaðið Skessuhorn á Vesturlandi verður brátt 10 ára gamalt var ákveðið að minnast tímamótanna með útgáfu viðtalsbókar. Bókin Fólkið í Skessuhorni kom úr prentun fyrir helgi og verður dreift í verslanir í þessari viku. Hún hefur að geyma 62 viðtöl við áhugaverða Vestlendinga. Blaðamennirnir Fríða Björnsdóttir og Jóhanna G Harðardóttir völdu efnið og bjuggu til prentunar en höfundar efnis eru 18 blaðamenn og fréttaritarar sem haft hafa viðdvöl á Skessuhorni á liðnum árum. Bókin er 160 síður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Einari Gíslasyni frá Lundi við stutta athöfn fyrir skömmu. Einar átti hugmyndina að nafngift blaðsins fyrir rúmum áratug síðan, en æ síðan hefur hið eftirminnilega nafn Skessuhorns stutt við útgáfuna á ýmsan hátt.   Frétt á vef Skessuhorns

Rökkurdagar nálgast

 Rökkurdagar hefjast í Grundarfirði nk. fimmtudag kl. 17 í Sögumiðstöðinni. Þá verður undirritaður samningur milli Grundarfjarðarbæjar og Eyrbyggju- sögumiðstöðvar og samstarfið sem og dagskrá Rökkurdaga kynnt. Áhersla verður lögð á íslenskar bíómyndir að þessu sinni, nýjar sem og nokkrar eldri.

Síldveiði glæðist á ný

Undanfarna daga hefur síldveiði glæðst á ný í Grundarfirði.  Veðrið hefur verið hagstætt til veiða og sjórinn lygn.  Flesta daga hafa verið fjögur til fimm síldveiðiskip að veiðum í einu.  Vandasamt er að kasta nótinni inni á firðinum því dýpi er afar misjafnt.  Þetta fengu skipverjar á Berki NK að reyna síðastliðinn föstudag þegar nótin flæktist í skrúfu og skrúfuöxli skipsins.  Það tók kafara 38 klukkustundir að losa nótina.  Börkur fékk svo hluta af stóru kasti hjá Kap VE og sigldi til heimahafnar til löndunar í gærkvöldi. 

Lítil síldveiði í Grundarfirði

 Lítil síldveiði hefur verið síðustu daga í Grundarfirði, að sögn skipsverja á Sighvati Bjarnarsyni VE frá Vestmanneyjum. Veður er frekar óhagstætt þessa dagana og lítið að sjá af síld. Þrír síldarbátar eru í höfn í Grundarfirði og nota sjómennirnir tíma til að slappa að og taka göngutúra um bæinn eða eins og einn skipsverjinn sagði; “aðeins að viðra sig.“ Ágætis veiði var á sunnudaginn var og fengu sumir bátar allt að 1000 tonnum yfir daginn.   Frétt á vef Skessuhorns.

Spurning vikunnar

Það voru að sjálfsögðu flestir ánægðir með bíósýningarnar um daginn þegar myndin Veðramót var sýnd. Þess má geta að á Rökkurdögum verður mikil bíóveisla. þá verða til sýningar margar góðar íslenskar myndir. Má þar m.a. nefna Astrópíu. Þannig að það er um að gera að fylgjast með þegar dagskráin verður birt.   Rökkurdagar hefjast þann 1. nóvember næstkomandi.

Er einhver með snjalla hugmynd um atvinnusköpun? Skoðið vef Impru.

  Ástæða er til þess að benda áhugasömum einstaklningum á eftirfarandi auglýsingu frá IMPRU sem er miðstöð fyrir frumkvöðla og sprotastarfsemi:     Frekari upplýsingar á www.impra.is