Kynningarfundur á nýjum íbúðum eldri borgara

Bygginganefnd íbúða aldraða mun standa fyrir kynningarfundi í Samkomuhúsinu, Sólvöllum 3, Grundarfirði mánudaginn 30. júní n.k. milli kl. 17 og 19. Þar sem kynntar verða nýtt raðhús sem Grundarfjarðarbær er að láta byggja að Hrannarstíg 28 - 40 í Grundarfirði, fyrir eldri borgara.  

Starfsmaður vikunnar í áhaldahúsi

Starfsmaður vikunnar í sumarvinnunni 16. – 20. júní var valinn af samstarfélögum sínum Gísli Valur Arnarsson. Gísli Valur er 15 ára og er sonur Sigríðar Gísladóttur og Arnar Jónssonar.   Við þökkum Gísla fyrir vel unnin störf og óskum honum til hamingju með tilnefninguna!!  

Á góðri stund í Grundarfirði

Framkvæmdarstjóri hátíðarinn þetta árið, Hrafnhildur Jóna, vinnur nú hörðum höndum að skipulagningu hátíðarinnar sem verður helgina 25. – 27. júlí. Drög að dagskrá er komin inn á síðuna, en nánari tímasetningar og fleira verður komið á hreint þegar nær dregur.  

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins

Fimmtudaginn 19.júní kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til hafnar hér í Grundarfirði. Skipið heitir Funchal og er með þeim smærri sem koma til Grundarfjarðarhafnar þetta árið. Búið er að leggja mikla undirbúningsvinnu í það að taka vel á móti farþegum þeirra skemmtiferðaskipa sem hingað koma. Blíðskapar veður tók á móti gestum þessa fyrsta skips sumarsins, sem flestir voru franskir. Kynningarbás hafði verið komið fyrir niður við höfn þar sem fólk gat fengið upplýsingar um það sem um var að vera í bænum þennan dag. Það sem gestum var meðal annars boðið upp á var söngur leikskólabarna, sölubásar við höfnina, fólk í íslenska búningnum, hestasýning auk þess sem áhöfn skipsins mætti grundfirskum ungmennum í fótbolta. Ekki var annað að sjá en að fólk hafi verið mjög áhugasamt um það sem í boði var og allir sammála um að þessi frumraun hafi tekist vel og dagurinn vel heppnaður í alla staði. Hér að neðan má sjá myndir sem Ingi Hans Jónsson tók við komu skipsins. 

Unglingastarf Pjakks

Síðastliðinn vetur var einn af valkostunum í félagsstarfi fyrir unglinga að ganga til liðs við unlingadeildina Pjakk, sem er deild á vegum Björgunarsveitarinnar Klakks. Starf unglingadeildar hafði legið niðri um skeið en í vetur var áberandi mikil gróska í starfinu og mikil ánægja hjá krökkunum í deildinni með starfið. Umsjón með starfi Pjakksins hafði Þorbjörg Guðmundsdóttir kennari við Grunnskólann, en starfið var hugsað fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Endapunktur vetrarstarfsins var óvissuferð krakkanna í maílok og fylgir hér á eftir ferðasagan.  

Framhaldsfundur Eyrbyggja - sögumiðstöðvar

Mánudaginn 16. júní var haldinn framhaldsstofnfundur fyrir Eyrbyggju, sögumiðstöð, í Krákunni. Á fundinum var rakinn  undirbúningur að stofnun Eyrbyggju, sögumiðstöðvar. Megintilgangur hennar verður almenn fræðsla um sögu Snæfellsness og uppsetning sýninga í húsnæði sem keypt hefur verið fyrir starfsemina að Grundargötu 35.   Vel gengur að safna stofnframlögum sem eru nú liðlega 1,7 millj. kr. auk framlags sveitarfélagsins sem nemur 2 millj. kr. Hægt er að gerast stofnaðili út árið 2003.   Kosið var í fimm manna stjórn sem er skipuð þremur fulltrúum stofnaðila og tveimur fulltrúum tilnefndum af bæjarstjórn Grundarfjarðar. Af hálfu stofnaðila vou kjörin í stjórn þau Gísli Ólafsson, Jóna Björk Ragnarsdóttir og Ágúst Jónsson. Til vara eru Johanna E Van Schalkwyk, Guðjón Elisson og Guðmundur Gíslason.   Af hálfu bæjarstjórnar voru tilnefndir Björn Steinar Pálmason og Ragnar Elbergsson. Til vara eru Sigríður Finsen og Björg Ágústsdóttir.

Kirkjugarður í Eyrarsveit - endurbætur

Í gær, miðvikudaginn 18.júní, var opnun tilboða í endurbætur á kirkjugarðinum að Setbergi í Eyrarsveit. Þrjú tilboð bárust í verkið. Lægsta tilboðið var frá Dodds ehf. og hljóðaði það upp á 10.168.780 kr. sem er 108,3% af kostnaðaráætlun en kostnaðaráætlun við verkið var 9.392.263 kr. Önnur tilboð sem bárust voru frá Gráborg ehf. og Írakletti ehf.  

17. júní hátíðarhöld

Hátíðardagskráin var með hefðbundnu sniði hér í Grundarfirði. Fyrir skrúðgöngu var börnum boðið upp á andlitsmálningu. Að því loknu hélt skrúðgangan með Lúðrasveit Grundarfjarðar í broddi fylkingar upp í þríhyrning.  Þórunn Kristinsdóttir flutti hátíðarræðu og fjallkona að þessu sinni var Sigríður Guðbjörg Arnardóttir. Pétur Pókus og Bjarni töframaður voru með skemmtun, söngatriði voru flutt og börnum var boðið að fara á hestbak. Það gekk á með hefðbundnum 17.júní skúrum en stytti upp þegar líða tók á daginn. Hátíðinni lauk svo með diskóteki fyrir börn og unglinga í þríhyrningnum. Hátíðin var í umsjá íþrótta- og tómstundanefndar Grundarfjarðar og eru henni, KFUM/K, unglingadeild Snæfellings, Sylvíu Rún og öðrum sem komu að hátinni færðar þakkir fyrir.  

Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn

Fimmtudaginn 19. júní blásum við til hátíðarstemmningar í Grundarfirði. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins ,,Funchal” kemur að bryggju kl. 8.00, nær allir gestirnir eru franskir. Alls hafa sjö skemmtiferðaskip boðað komu sína í sumar og sérstakt átak var sett af stað í vetur til að fjölga komum þeirra á næstu árum.   Af hálfu Grundarfjarðarhafnar og fjölmargra annarra aðila er búið að leggja mikla undirbúningsvinnu í að taka vel á móti því fólki sem þarna er innanborðs. Það er ósk okkar að bæjarbúar leggi okkur lið við að hafa hér lifandi og skemmtilegt mannlíf og að við sýnum okkar bestu hliðar þennan dag.   Ferðafólk sem hingað kemur hefur haft á orði þegar spurt er hvað sé sérstakt við að koma til Grundarfjarðar, að hér sé upp til hópa glaðlegt fólk og bærinn sé einstaklega fallegur. Þessa ímynd bæjarins er vert að halda í. Það er m.a. hægt að gera með því að vera á röltinu um bæinn, heilsa gangandi fólki, sama hver það er, BROSA allan hringinn og vera vel sýnileg. Þetta gerum við reyndar alla daga ársins hér í Grundarfirði en gaman væri ef við vönduðum okkur sérstaklega þessa daga sem skipin eru hér við höfn.  

Stofnfundur

Mánudaginn 16. júní n.k. verður haldinn framhaldsstofnfundur Eyrbyggju -  sjálfseignarstofnunar um sögumiðstöð. Fundurinn verður haldinn í Krákunni og hefst hann kl. 20.00. Allir eru boðnir velkomnir, ekki síst þeir sem samþykkt hafa að gerast stofnaðilar eða óska eftir því.