- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Bæjarskrifstofan hefur undanfarnar vikur tekið við tilkynningum um skemmdir sem urðu í ofsaveðrinu á Þorláksmessu. Ljóst er að víða hefur orðið talsverð eyðilegging og í öllum tilfellum eru óþægindi og fyrirhöfn í nokkrum mæli. Rúðubrot eru áberandi bæði á bílum og í húsum. Þó nokkur tilfelli eru um skemmdir á lakki bíla og sömuleiðis á veggjum og þökum húsa. Tjón hafa verið tilkynnt við eftirtaldar götur í Grundarfirði: Borgarbraut, Eyrar-veg, Fagurhól, Fagurhólstún, Fellasneið, Grundargötu, Hrannarstíg, Nesveg, Smiðjustíg, Sólvelli, Sæból og Ölkelduveg. Þetta liggur fyrir samkvæmt þeim tilkynningum sem borist hafa og ljóst að nyrðri og vestari hlutar bæjarins hafa orðið fyrir allnokkru tjóni. Í dreifbýlinu er vitað um skemmdir á bæjunum Kverná og Nausti I. Þeir sem lentu í þessum skakkaföllum, hafa leitað til
tryggingafélaga eftir bótum. Það er þó ekki einhlýtt að bætur fáist. Reglur tryggingafélaganna eru þannig úr garði gerðar að bótaskylda í veðri sem þessu er misjöfn eftir því hvað hefur gerst á hverjum stað. Að mörgu leyti má rökstyðja að ofsaveður eins og það sem gekk yfir Grundarfjörð á Þorláksmessu, sé ekkert örðuvísi en aðrar náttúruhamfarir sem Viðlagatrygging nær yfir, en svo er ekki. Tryggingafélög á almennum markaði hafa tekið að sér að tryggja húseigendur vegna tjóna af völdum ofsaveðurs, en með talsverðum takmörkunum þó. Eðlilegast væri að Viðlagatrygging hefði þennan bótaflokk innan sinna vébanda eins og aðrar náttúruhamfarir. Þeim sem urðu fyrir tjóni er þakkað fyrir að bregðast við og koma fregnum af því til skrifstofunnar. Unnið verður að því að fá upp umræðu um breytingar á tryggingum vegna atburða af þessu tagi í þeim tilgangi að auka tryggingavernd ef mögulegt er vegna ofsaveðra. Sömuleiðis er bæjarstjóri reiðubúinn áfram til þess að aðstoða og leita upplýsinga um mögulegar bætur.