Setbergskirkja

Setbergskirkja er timburhús í einu formi, 7,79 m að lengd og 6,45 m á breidd. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli og framundan kirkjudyrum eru steinsteyptar tröppur með sjö þrepum og hellulögð stétt að sáluhliði gengt kirkju.

Veggir kirkjunnar eru klæddir lóðréttum plægðum og strikuðum borðum og hornborðum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Lítill fjögurra rúðu skásettur gluggi er á framstafni

Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Um dyrnar eru strikaðir faldar og yfir þeim panelklæddur skjöldur með vatnsbretti yfir og á hann máluð áletrunin Setbergskirkja Byggð 1892.

Þakið er klætt bárujárni. Yst á mæni upp af framstafni er trékross með liljuskurði á endum krossarma og hástilks. Hann var smíðaður eftir upprunalega krossinum sem geymdur var á Akurtröðum. Gefendur voru Hreinn Bjarnason og Dagbjört Bjarnadóttir á Berserkseyri til minningar um foreldra þeirra

Veggir eru ljósblágráir, gluggar og tréverk annað hvítt, hurðir ljósgráar og þak er ljósgrátt.

 

Innri gerð

Inn af kirkjudyrum er gangur og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Innst í kirkju er hár kórpallur og á honum er altari á palli fyrir miðju. Altarið er úr eldri kirkju. Framan altaris eru bogadregnar gráður með handriði með renndum pílárum og knéfalli utan með. Altaristaflan er eftir Anker Lund og sýnir Upprisuna.

Prédikunarstóll er við innsta glugga sunnan megin og innst norðan megin er kirkjuorgel. Setuloft er yfir fremsta hluta forkirkju og reitaskipt hvelfing stafna á milli. Í hvelfingu upp af framstafni er opið upp í klukknaklefa á kirkjuloftinu þar sem tvær klukkur hanga. Önnur þeirra var smíðuð á Þingeyri 1927.

Innarlega í framkirkju hangir hjálmur með sex kertapípum og glerkúpli fyrir olíulampa í miðju sem breytt hefur verið fyrir rafljós. Nærri prédikunarstól hangir hjálmur með átta kertapípum úr kopar með ártalinu 1789. Gefinn til minningar um Hinrik van der Inissen af sonum. Hann fannst bak við loftaþiljur og settur upp ofan við prédikunarstól árið 1976

Orgelharmoníum Lindholm og orgelstóll með áklæði er barn síns tíma og orgel og orgelstóll frá Grundarfjarðarkirkju sem var flutt í Setbergskirkju 1986 hefur ekki þolað kuldann öll árin og var hætt að nota það árið 2008.

Fyrir 100 ára afmælið 1992 var kirkjan máluð innan og utan í upprunalegum litum. Járnsúlur tvær voru fjarlægðar og settar trésúlur í staðinn fremst í kirkjunni. Útidyrahurðir, bekkir, altari og prédikunarstóll voru hreinsaðir að hluta og málaðir í upprunalegum litum.

Prédikunarstóll sem var smíðaður upp úr eldri stól 1892 var hreinsaður og undir 5 lögum af málningu fannst máluð mynd af guðspjallamanninum Markúsi á norðurhlið stólsins og á vesturhlið málaður nafndráttur BWE og ártalið 1757. Á syðri hliðinni fannst máð ógreinanleg mynd. Jón Svanur Pétursson málari úr Stykkishólmi vann verkið.

Messuklæði og altarisklæði gömul eru í geymslu í Grundarfjarðarkirkju.  Föstuhökull, stóla og klæði á prédikunarstól, unnið af Sigrúnu Jónsdóttir textillistakonu. Gefendur Þorkell Sigurðsson og systkini hans frá Suður-Bár til minningar um foreldra sína.

Tveir höklar hvítur og rauður, ensk gerð (1992) Gefnir af Unni Elíasardóttir til minningar um Eggert Jóhannesson frá Jaðri. Á veggjum eru tveir silfurskildir til minningar um sr. Jósef Jónsson og Hólmfríði Halldórsdóttur 1919-1954 og mynd af séra Jens V. Hjaltalín presti á Setbergi 1882-1918.

Á upphækkun sunnan við kirkjuna eru þrír gamlir legsteinar sem komu upp úr grunninum við endurbæturnar 1982.

 

Setbergskirkjugarður

Kirkjugarðurinn var stækkaður 1962 og aftur árið 2004-5 til norðurs og austurs. Vígður  í maí 2005. Ný girðing var sett upp allan hringinn og gömlu hliðin látin halda sér en tvö ný sett á norðurhlið garðsins við bílastæði. Lýsing er 220 V en ljósakrossar allir með rafhlöðum.

Áhaldahús og sáluhlið var byggt af Trésmiðju Pálmars Einarssonar og klukka 7 kg keypt frá Spáni um leið og klukkur Grundarfjarðarkirkju, sjá munaskrá. Nýtt sáluhlið var byggt árið 2018 af Þorsteini Friðfinnssyni og mun klukkan eiga sinn sess í þaki þess.

 

Unnið í des. 2008

Sunna Njálsdóttir