Það hljómar kannski eins og aftan úr fornöld að Norrænir menn og konur komi saman til að segja sögur. En það er öðru nær, því nú stendur yfir Norrænt sagnaþing í Grundarfirði.
Sagnalist, það að segja sögur, nýtur vaxandi vinsælda hér á landi, eins og víða í löndunum í kringum okkur. Sagðar eru sögur í skólum, boðið er upp á sögustundir fyrir ferðamenn og sögur eru einnig notaðar í tengslum við rekstur fyrirtækja og stofnana. Stöðugt fleiri bætast í hóp sagnaþulanna, fólks sem sækir sér þekkingu og reynslu í því að segja sögur og fæst við það á ýmsum vettvangi.
Íslenskir sagnaþulir taka virkan þátt í samstarfi norrænna sagnaþula og á ári hverju er haldið fimm daga norrænt sagnaþing með námskeiðum, sögustundum og samveru. Sagnaþingið hófst síðastliðinn sunnudag, þann 19. júlí og stendur til 24. júlí.