Bæring Cecilsson

Bæring Cecilsson fæddist og ólst upp á Búðum undir Kirkjufelli í Eyrarsveit 24. mars 1923. Hann lést 17. maí 2002. Móðir Bærings var Oddfríður Kristín Runólfsdóttir, húsmóðir, f. 21. febrúar 1898, d. 16. nóvember 1972, dóttir Pálínu Pálsdóttur og Runólfs Jónatanssonar bónda að Naustum í Eyrarsveit. Faðir Bærings var Cecil Sigurbjörnsson, bóndi og sjómaður að Búðum, f. 22. ágúst 1896, en hann fórst með línuveiðaranum Papey 20. febrúar 1933, eftir ásiglingu þýsks skips.

Árið 1945 fluttu Bæring og bræður hans ásamt móður þeirra að Grundargötu 17 í Grafarnesi sem var þá byrjað að vaxa upp sem þéttbýli við Grundarfjörð. Bæring átti heima þar alla tíð síðan, fyrir utan síðustu æviárin þegar hann bjó á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Fellaskjóli.

Bæring réri á eigin trillubáti með bróður sínum Soffaníasi frá 14 ára aldri. Síðar sótti hann vélstjóranámskeið hjá Vélskóla Íslands og starfaði síðan sem vélstjóri bæði á sjó og í landi. Eftir miðjan aldur vann hann á eigin vélaverkstæði sem hann rak að Borgarbraut 16. 

Bæring var áhugaljósmyndari og eftir hann liggur mikið safn ljósmynda sem spannar alla sögu þéttbýlis í Grundarfirði. Hann starfaði einnig sem fréttaljósmyndari Sjónvarpsins og dagblaða. Þá var Bæring gerður að heiðursborgara Grundarfjarðar árið 1997. 

(Byggt á umfjöllun í Mbl, 1. júní 2002)

Myndasafn Bærings

Sumarið 2002 var sett upp ljósmyndasýningin „Ískaldur veruleiki“ á vegum Eyrbyggja, Hollvinasamtaka Grundarfjarðar. Samtökin höfðu haft veg og vanda að því að safna þúsundum ljósmynda úr Grundarfirði á tölvutækt form. Mikilvirkastir við skönnun ljósmynda á þeim tíma voru þeir Guðjón heitinn Elisson og Sveinn Arnórsson.  Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á sýninguna 2002. Á næstu árum var unnið að frekari skönnun, bæði á myndum og filmum, m.a. á vegum Sögumiðstöðvarinnar. Sumarstarfsmaðurinn Guðmundur Rúnar Guðmundsson vann m.a. við að skanna filmur, en Guðmundur Rúnar skrifaði afar áhugaverða BA-ritgerð um ljósmyndir Bærings er nefnist Taumur líðandi stundar: Um tíma og endurtekningar í ljósmyndum Bærings Cecilssonar. 
Árið 2020 hófst vinna á vegum Grundarfjarðarbæjar við skönnun filmusafns Bærings og munu um 40 þúsund myndir bætast í safn ljósmynda frá árunum 2003-2010. Olga Sædís Aðalsteinsdóttir vinnur við skönnunina og tekur saman úrval nýskannaðra mynda til að birta í Sjöunni sem birtist vikulega á fréttasíðu vefs Grundarfjarðarbæjar. 

 

Átak í skönnun filmusafnsins hófst árið 2020 og var lokið við að skanna um 21.000 filmuramma í lok ársins 2022 og stór skammtur af eldri filmum var skannað árið 2023.
Í tilefni af 100 ára afmælisdegi Bærings þann 24. mars 2023 var ljósmyndasafnið opnað á Sarpi sem er menningarsögulegt gagnasafn fyrir minjasöfn landsins og nú nokkur ljósmyndasöfn. Nú getur heimafólk, brottflutt og vinir notið myndanna og einnig lagt sitt af mörkum við að bera kennsl á fólk, viðburði og staði í myndum Bærings.

Sarpur

Frá hverri mynd er hægt að færa inn upplýsingar og senda í tölvupósti.
Bókasafn Grundarfjarðar sér um varðveislu og skráningu safnsins fyrir Grundarfjarðarbæ.

Leiðbeiningar um leit í myndasafni BC í Sarpi. Notið nefnifall eintölu leitarorða.

Filmusafn Bærings er varðveitt hjá Kvikmyndasafni Íslands. Lítillega hefur verið unnið úr rafrænum afritum og má nálgast stutta filmubúta á vefsíðunni https://bæi.is/ (með æ).

 

Bæringsstofa

Bæringsstofa er lítill salur í Sögumiðstöðinni sem nefndur er eftir áhugaljósmyndaranum og Grundfirðingnum Bæring Cecilssyni (1923-2002). Ljósmyndasafn Bærings nefnist einnig Bæringsstofa en myndir úr safni hans eru sýndar í salnum á opnunartíma Sögumiðstöðvar. Ljósmyndir Bærings spanna tímann frá myndun þéttbýlis í Grafarnesi (síðar Grundarfjörður) eftir 1938 og fram undir árið 2000. 

Árið 2020-2021 stóðu yfir endurbætur í Bæringsstofu, sjá nánar hér. Stólarnir í salnum voru komnir til ára sinna og voru því sætin tekin í gegn, nýtt áklæði sett á stólana og nýir armar smíðaðir á þá. Einnig var salurinn málaður upp á nýtt og lýsing endurbætt. 

Hægt er að leigja Bæringsstofu undir viðburði eða fyrirlestra með því að fylla út umsókn um leigu á Bæringsstofu eða senda fyrirspurnir á grundarfjordur@grundarfjordur.is
Veitingar eru ekki leyfðar inni í Bæringsstofu en hægt er að nýta miðrýmið í Sögumiðstöð til neyslu veitinga. Vinsamlega takið það fram í bókun ef þörf er á að nota miðrýmið á sama tíma og Bæringsstofa er leigð.
 

Bæringsstofa
Grundargötu 35
Sími 438 1881

 

Hér fyrir neðan má finna sýnishorn af eldri myndum Bærings - smellið á myndirnar til að skoða viðkomandi myndasöfn: