Aðventuhátíð í Grundarfirði

  Eins og eftir pöntun klæddist Grundarfjörður vetrarskrúða nóttina fyrir aðventuhátíðina. Aðventuhátíð Kvenfélagsins Gleym mér ei í Samkomuhúsinu tókst mjög vel. Margir mættu og allir í hátíðarskapi. Eftir skemmtilega og fjölbreytta dagskrá í Samkomuhúsinu var haldið í miðbæinn. Þar spilaði Lúðrasveit tónlistarskólans og nokkrir kátir jólasveinar mættu. Svo var jólatréð lýst upp við mikinn fögnuð viðstaddra.   Myndir má nálgast hér.

Íþróttamaður ársins

  Á aðventuhátíð Kvenfélagsins Gleym mér ei s.l. laugardaginn var valinn íþróttmaður ársins 2009. Að þessu sinni hlaut Dominik Bajda titilinn fyrir afburða árangur á knattspyrnuvellinum. Auk þess þykir Dominik sterk og góð fyrirmynd og hann gefur mikið af sér til yngri iðkenda íþróttarinnar.

Vinahúsið Grund fer vel af stað

  Rúmlega 30 manns mættu á hátíðaropnun Vinahússins Grundar s.l. fimmtudag. Steinunn Hansdóttir, umsjónarkona Grundar tók á móti gestum með dýrindis veitingum og fræddi þá um markmið og tilgang starfsins. Vinahúsið verður opið þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 14:00 – 16:00.

Félög í Grundarfirði kynna starfsemi sína

Kvenfélagið Gleym mér ei var með opið hús á Rökkurdögum sunnudaginn 25. okt. í Samkomuhúsinu. Tilgangurinn var að kynna félagið, tilgang þess og starfsemi. Félögum í Grundarfirði og Eyrarsveit var boðið að taka þátt í kynningardeginum og þáðu það 18 félög af þeim 22 sem náðist til. Með þessu vildi kvenfélagið styðja við þátttöku almennings í hvers konar félags- og tómstundastarfi. Þótti kynningin takast vel og stóðu þátttakendur sig með sóma eins og myndir frá deginum sýna. Lúðrasveit Tónlistarskólans spilaði fyrir gesti. SuN  

Íþróttamaður Grundarfjarðar 2009

Íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2009 verður kjörinn laugardaginn 28. nóvember á aðventudegi fjölskyldunnar í samkomuhúsinu. Afhending viðurkenninga og verðlauna byrjar um kl. 15.00. Að þessu sinni eru fjórir einstaklingar tilnefndir. Kosning fór þannig fram að íþrótta - og tómstundanefnd kallaði eftir tilnefningum frá íþróttafélögum um íþróttamann ársins og síðan voru þessir aðilar kallaðir til leynilegrar kosningar.

Jólastund í Grundarfirði

Senn líður að jólum og verður aðventunni fagnað í Grundarfirði laugardaginn 28. nóvember. Klukkan 14:00 hefst hin árlega aðventuhátíð kvenfélagsins Gleym mér ei í Samkomuhúsinu, og þar verða á boðstólum vöfflur, kakó og piparkökur. Einnig er leikfangahappdrætti og sölubásar ýmissa aðila verða opnir. Klukkan 16:45 hefst dagskrá í miðbænum. Lúðrasveit tónlistarskólans hefur leikinn og heillar viðstadda með ljúfum tónum. Klukkan 17:00 verða ljósin tendruð á jólatrénu og nemendur og starfsfólk tónlistarskólans gefa tóninn. Heyrst hefur að einhverjir jólasveinar vilji vera viðstaddir. Spurning hvort að Grýla hleypi þeim út áður en að hefðbundnum útivistartíma kemur. Mætum öll og eigum góða stund saman.

Betrifatadagur

Betrifatadagur var haldinn síðastliðin miðvikudag. Þá áttu allir, bæði starfsmenn og nemendur að mæta í skólann í betri fötunum. Þetta vakti mikla lukku og voru margir í sínu fínast pússi.    

Eldvarnarátak slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Eldvarnarátak slökkviliðs - og sjúkraflutningamanna hófst föstudaginn 20. nóvember. Að því tilefni komu nokkrir úr slökkviliði Grundarfjarðar í heimsókn í 3. bekk. Við fengum fræðslu um eldvarnir á heimilum og minnt á númerið 112.      

Árgangur 2005.

Krakkar úr árgangi 2005 á leikskólanum komu í heimsókn í Grunnskólann í dag. Þau voru að heimsækja nokkra foreldra sem vinna þar.    

Jólaföndur foreldrafélags grunnskólans

Jólaföndrið er í dag 26. nóvember frá klukkan 16:00-17:30 fyrir yngstastig og elstu leikskólabörnin og frá klukkan 18:00-19:30 fyrir miðstig.