Svar við Spurningu vikunnar

Það voru flestir með það á hreinu hvaða jólasveinn kæmi fyrst til byggða, en það er að sjálfsögðu Stekkjastaur. 169 manns tóku þátt og voru 154 eða 91,1% með rétt svar.  Á eftir Stekkjastaur koma hinir í þessari röð: Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og síðastur er Kertasníkir.

Jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Fimmtudaginn 14.desember kl:17:00 verða jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar í sal skólans (gengið inn í félagsmiðstöð).   Við hvetjum alla Grundfirðinga til að mæta, hlusta á tónlist við kertaljós og þiggja veitingar í boði skólans. Skólastjóri

Framkvæmdir við Ölkelduveg

Vegna lóðaframkvæmda við Ölkelduveg 9-15 eru gangandi vegfarendur vinsamlegast beðnir um að fara ekki Ölkelduveginn að gatnamótun Ölkelduvegs og Hrannarstígs til og frá skóla. Stórtækar vinnuvélar eru þarna við störf auk þess sem blautur jarðvegur liggur yfir veginn. Vegfarendum er bent á að ganga yfir bílaplan bókasafnsins og Smiðjustíginn.   Skipulags- og byggingarfulltrúi. 

Frá Orkuveitu Reykjavíkur

Vegna bilunar á aðalvatnsæð vatnsveitunnar verða vatnstruflanir fram eftir kvöldi. 

Á góðri stund í Grundarfirði

Heimildamyndirnar sem fjöllistamaðurinn Örn Ingi hefur unnið um bæjarhátíðirnar „Á góðri stund í Grundarfirði“ árin 2004-2006 er til sölu á bæjarskrifstofunni. Myndin kostar 3.500 kr. og er tilvalin jólagjöf!  

Landaður afli í nóvember

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í nóvember var 1.012 tonn. Landaður afli á sama tíma í fyrra var 1.324 tonn og 1.511 tonn árið 2004. Meðfylgjandi tafla sínir aflann sundurskiptan eftir tegundum öll árin.   Tegundir 2006 2005 2004 Þorskur 73.254    197.267 316.764  Kg Ýsa 144.612    249.301 336.226  kg Karfi 44.487    90.705 82.680  kg Steinbítur 27.012    147.169 26.248  kg Ufsi 21.983    57.997 51.829  kg Beitukóngur 6.170    60.206 38.065  kg Skötuselur 8.742    9.781 0  kg Langa  4.501    20.350 2.548  kg Keila 739    2.918 2.408  kg Gámafiskur 669.408    475.211 515.827  kg Aðrar tegundir  11.481    13.101 139.099  kg Samtals 1.012.389    1.324.006    1.511.694     

Styrktartónleikar í kvöld

Í kvöld, fimmtudaginn 7. desember, kl. 20.00 verða haldnir styrktartónleika til styrktar BUGL (Barna og unglingageðdeild) í Samkomuhúsi Grundarfjarðar.   Fram koma: Jamie’s Star Stuðbandið Endless Dark og fleiri og fleiri...   Aðgangseyrir er 500 kr.

Bæjarstjórnarfundur í dag

74. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í dag, fimmtudaginn 7. desember í Grunnskóla Grundarfjarðar. Fundurinn hefst kl. 17.00 og er öllum opinn. Sjá dagskrá og fundarboð með því að smella hér.     Bæjarstjóri

Sængurgjöf samfélagsins

Í dag, 6. desember, var nýfæddum Grundfirðingum færð sængurgjöf samfélagsins. Verkefnið er hluti af fjölskyldustefnu Grundfirðinga og er samstarf Grundarfjarðarbæjar og Heilsugæslustöðvar Grundarfjarðar. 13 börn eru fædd á árinu, 9 strákar og 4 stelpur, og er þetta í annað sinn sem gjafirnar eru veittar. 5 börn hafa fæðst síðan sængurgjafirnar voru afhentar síðast en ekki er von á fleirum það sem eftir er ársins. Gjöfin innihélt m.a. fatnað, handklæði, beisli, fræðslubækur og pollagalla sem nauðsynlegur er öllum grundfirksum börnum. Gjafirnar voru afhentar í safnaðarheimilinu í morgun, en Sr. Elínborg hafði boðað foreldra allra barna sem fædd eru 2006 þangað.   F.v. Eydís Lúðvíksdóttir með óskírðan dreng, Vigdís Gunnarsdóttir með Guðmar Hólm, Ísólfur Þórisson, Heiðar Þór Bjarnason, Erna Sigurðardóttir með Hörpu Dögg, Birgir Guðjónsson og Urszula Bielawska með Gabríel Leó. Fyrir framan er Eva Jódís Pétursdóttir með Anítu Ósk og Andreu Ósk en þær voru fæddar þegar gjafirnar voru afhentar fyrst.   Sjá fleiri myndir í myndabankanum með því að smella hér.

Íþróttamaður Grundarfjarðar 2006

Íþróttamaður Grundarfjarðar árið 2006 var kjörinn þann 2. desember sl. Brynjar Kristmundsson hlaut titilinn að þessu sinni fyrir árangur í knattspyrnu. Brynjari eru færðar innilegar hamingjuóskir með kjörið.   Brynjar Kristmundsson, íþróttamaður Grundarfjarðar 2006.  Mynd: Sverrir Karlsson