Kveikt á jólatrénu í miðbænum

Laugardaginn 2. desember kl. 18.00 verður kveikt á jólatré Grundfirðinga í miðbænum, við heilsugæsluna. Mætum öll og upplifum stemminguna í upphafi aðventunnar.   Foreldrafélag leikskólans Sólvalla hvetur foreldra til að mæta með börnum sínum og taka þátt í fjöldasöng .   Tökum daginn frá fyrir samveru fjölskyldunnar!  

Tónlist fyrir alla

Í gær, miðvikudaginn 29. nóvember, komu tónlistarmenn í heimsókn í til Grundarfjarðar og spiluðu í félagsmiðstöðinni Eden í tengslum við verkefnið „Tónlist fyrir alla“. Þar var fremstur í flokki Björn Thoroddsen. Fluttar voru útsetningar Björns á sálmum Martins Lúthers fyrir djasstríó, en tríóið skipa auk hans, þeir Jóhann Ásmundsson (Mezzoforte) á rafbassa og Benedikt Brynleifsson (Hljómsv. Björgvins Halldóssonar) á trommur og slagverk. Sýndir voru meistarataktar og höfðu bæði nemendur og starfsfólk grunnskólans mikið gaman af.  

Heimsókn slökkviliðsins í Grunnskóla Grundarfjarðar

3. bekkur Grunnskóla Grundarfjarðar   Hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutingamanna stendur nú yfir eldvarnarvikan 2006. Nemendur í 3. bekk um allt land fá heimsókn frá slökkviliðinu og kom slökkvilið Grundarfjarðar í heimsókn í grunnskólann sl. miðvikudag. Þar voru á ferð þau Gunnar Pétur Gunnarsson slökkviliðsstjóri og Guðrún Ósk Hrólfsdóttir.

Jólatónleikar Jöklakórsins

Frá æfingu Jöklakórsins í Stykkishólmkirkju sl. þriðjudag. Mynd Gunnlaugur Árnason.   Jöklakórinn sem í eru kórfélagar úr kirkjukórum, Ingjaldshóls, Ólafsvíkur, Grundarfjarðar og Stykkishólmsprestakalls heldur jólatónleika í tilefni þess að á þessu ári eru liðin 20 ár frá för Jöklakórsins til Jerúsalem um jólin 1986 sem og viðkomu í páfagarði. Fyrstu tónleikarnir verða í Ólafsvíkurkirkju mánudagskvöldið 4. des kl. 20.30 aðrir í Grundarfjarðarkirkju þriðjudaginn 5. des. á sama tíma og þeir síðustu í Stykkishólmskirkju á miðvikudagskvöldið 6. des. kl. 20.30. Á efnisskrá eru fjölbreytt og skemmtileg jólalög sem eiga að koma öllum í jólaskap.  

Kveldúlfur

Kvikmyndaklúbburinn Kveldúlfur í kvöld kl. 20.30. 

Rétt svar við spurningu vikunnar

Fyrsta fjölbýlishúsið í Grundarfirði var kallað Götuprýði. 184 tóku þátt að þessu sinni og voru 85 eða 46,2% með rétt svar. Götuprýði stóð við Nesveg 7 þar sem Mareind er til húsa núna. Nafnið er talið koma til vegna fjölbreytileikans í litavali á húsinu því fólk var ekki, á þessum tíma, að ráðgast við nágrannan um litaval.

Menningarráð Vesturlands

Elísabet Haraldsdóttir menningarfulltrúi Vesturlands verður til viðtals á bæjarskrifstofunni fimmtudaginn 30. nóvember 2006 kl. 17-18.   Kynntar verða úthlutunarreglur Menningarráðs Vesturlands vegna styrkja á árinu 2007 og veittar upplýsingar um fyrirkomulag umsókna.   Mögulegir umsækjendur eru hvattir til að nota þetta tækifæri til að viðra hugmyndir sínar og útfærslur við menningarfulltrúann.   Nánari upplýsingar á www.menningarviti.is  

Heimildarmyndirnar Á góðri stund

Heimildarmyndirnar um hátíðina Á góðri stund árin 2004-2006 verða til sölu á bæjarskrifstofunni til jóla og kosta aðeins 3.500 kr.   Myndirnar eru liðlega 3 klst. langar á tveimur DVD diskum og er tilvalin gjöf til vina og vandamanna.  

Sigurörn frjáls á ný við Grundarfjörð

Sigurbjörg og Sigurörn. Mynd GK   Fjöldi fólks fylgdist með þegar Sigurbjörg Sandra bjargvættur Sigurarnar veitti honum frelsi á ný við Grundarfjörð sunnudaginn 26. nóvember sl. Örninn flaug í nokkrar mínútur eða allt þar til hann hvarf sjónum viðstaddra. Nú er vonandi að honum vegni vel en það tekur við hjá honum  að finna sér maka. Starfsfólk húsdýragarðsins þakkar Sigurbjörgu og starfsmönnum Náttúrfræðistofnunnar Íslands samstarfið í þessu ævintýri. Einnig íbúum Grundarfjarðar fyrir sýndan áhuga á erninum sem eflaust er um þessar mundir heiðursíbúi Grundarfjarðar. Frétt fengin af www.husdyragardur.is.

Sigurörn fær frelsið 26. nóvember

Fær bílfar í frelsið á Grundarfirði. Nú hefur fengist grænt ljós frá yfirdýralækni um að sleppa megi erninum Sigurerni sem dvalið hefur í Húsdýragarðinum í Laugardal frá því í lok júní. Niðurstöður sýna sem tekin voru reyndust neikvæð og fær hann því að halda til síns heima í Grundarfirði.  Þar mun Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir bjargvættur arnarins sleppa honum og ljúka þar með ævintýrinu sem hófst fyrir 5 mánuðum síðan.  Áætlað er að honum verði sleppt klukkan 13:00 sunnudaginn 26. nóvember.