Alþjóðlega kvikmyndahátíðin "Northern Wave" hófst með stuttri athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði í dag. Þórey Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar, bauð gesti velkomna og rakti í stuttu máli aðdraganda hátíðarinnar og færði Dögg Mósesdóttur þakkir fyrir frumkvæðið hennar, framtakið og dugnaðinn við að koma hátíðinni á. Sömuleiðis færði Þórey erlendum gestum þakkir fyrir að koma um langan veg til hátíðarinnar sem og öðrum gestum og dómurum. Veitt verða verðlaun í nokkrum flokkum stuttmynda. Hátíðin hófst með sýningu á stuttmyndinni "La Tierra Yerma" eftir Alfredo Vera. Á morgun, laugardaginn 23. febrúar, mæta nokkrir erlendir höfundar stuttmynda á hátíðina og kynna verk sín. Fyrir utan kvikmyndir verða tónleikar, "Masterclass" með Mark Berger og spjall kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi. Á hátíðinni eru nokkrir flokkar kvikmmynda og má sem dæmi nefna; dramatískar myndir, tónlistarmyndbönd, grínmyndir, vestri, hryllingsmyndir, tilraunamyndir, hreyfimyndir og dramatískar stuttmyndir. Kvikmyndirnar eru bæði eftir innlenda og erlenda höfunda. Allir finna eitthvað við sitt hæfi. Kvikmyndasýningar hefjast kl. 13 á laugardag og sunnudag. Hátíðinni lýkur með verðlaunaveitingum sunnudaginn 24. febrúar kl. 16.00.