Skólastefna Grundarfjarðarbæjar

Frá hausti 2013 hefur verið unnið að gerð skólastefnu fyrir Grundarfjarðarbæ. Nú liggja drög skólastefnunnar fyrir og íbúum gefst tækifæri til að kynna sér þau og koma með athugasemdir og ábendingar.   En hvað er skólastefna? "Skólastefna er leiðarvísir um skólastarf í sveitarfélaginu. Gerð skólastefnu snýst um að skilgreina leiðir til að sveitarstjórnarfólk, stjórnendur og starfsfólk skólanna og aðrir hagsmunaaðilar geti rækt hlutverk sitt, unnið í samræmi við gildi og náð þeirri framtíðarsýn sem stefnt er að. Í skólastefnunni felst að dregin er fram sérstaða sveitarfélagsins og þær áherslur í skólamálum sem íbúar hafa komið sér saman um. Stefnan sjálf breytir ekki skólunum heldur myndar hún grundvöll fyrir ákvarðanatöku og skýrir hvaða leiðir ákveðið er að fara til að ná ætluðum árangri."

Lok á samningi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur tilkynnt Grundarfjarðarbæ að nefndin sjái ekki ástæðu til frekari aðkomu hennar í kjölfar samnings bæjarins og nefndarinnar frá maí 2012. Samningurinn kvað á um fjárhagslega úttekt á rekstri bæjarins, tillögum til úrbóta, eftirfylgni og eftirlit.   Þetta er mikilvægur áfangi á langri leið og viðurkenning á því að þær aðgerðir sem ráðist var í til að styrkja fjárhag sveitarfélagsins hafa skilað árangri.   Með samstilltu átaki bæjarstjórnar, starfsmanna og íbúa sveitarfélagsins hefur tekið mun skemmri tíma en óttast var að styrkja fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Það hefur nú burði til að standa við skuldbindingar sínar fyrst og fremst gagnvart íbúum en einnig gagnvart kröfuhöfum.   Þessa dagana er unnið að gerð ársreiknings 2013 og verða nánari upplýsingar um fjárhag sveitarfélagsins kynntar þegar hann liggur fyrir.

Sögumiðstöðin

Vegna breyttrar starfsemi í Eyrbyggju sögumiðstöð efndi Grundarfjarðarbær til samkeppni um nýtt nafn á húsið. Markmið samkeppninnar var að fá nafn sem myndi fanga starfsemi hússins. Húsið þjónar hlutverki upplýsinga- og menningarmiðstöðvar bæjarins. Bókasafnið skipar stóran sess í vetrarstarfi hússins ásamt samverustundum ýmissa félaga í bænum. Ljósmyndasafn Bærings Cecilssonar og Eyrbyggja sögumiðstöð eiga sinn stað í húsinu. Eyrbyggja Sögumiðstöð ber ábyrgð á sýningahaldi tengdu uppbyggingu og sögu Grundarfjarðar.  Alls bárust 49 hugmyndir frá 23 aðilum. Mikill meirihluti innsendra tillagna hljóðaði upp á að húsið héldi nafninu Sögumiðstöðin.   Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi sem haldinn var 13. mars síðastliðinn. Þar var samþykkt samhljóða að nafn upplýsinga- og menningarmiðstöðvar Grundarfjarðar yrði Sögumiðstöðin.  

Viðskipti við tengda aðila árið 2013

Á árinu 2013 keypti Grundarfjarðarbær vörur eða þjónustu af fyrirtækjum sem tengjast bæjarfulltrúum. Það er mikilvægt að upplýsingar um þessi viðskipti liggi ljósar fyrir og Grundarfjarðarbær vill vera í fararbroddi þeirra sveitarfélaga sem hafa opna stjórnsýslu að leiðarljósi.   Hér að neðan er listi yfir fyrirtækin sem um ræðir og heildarviðskipti á árinu 2013:    Fyrirtæki Viðskipti alls kr. Djúpiklettur ehf. 137.205 Guðmundur Runólfsson hf. 906.226 Kamski ehf. (Hótel Framnes) 1.205.077 KB bílaverkstæði ehf. 493.796 Líkamsræktin ehf. 169.400 Ragnar og Ásgeir ehf. 627.670 Samtals 3.539.374  

Laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa árið 2013

Grundarfjarðarbær leggur áherslu á gagnsæja stjórnsýslu og gott upplýsingastreymi til íbúa. Með það að markmiði er ráðningarsamningur bæjarstjóra birtur á vefsíðu bæjarins sem og upplýsingar um laun og launakjör bæjarfulltrúa og launakostnaður vegna nefnda.   Í meðfylgjandi töflu eru sundurliðuð laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa vegna ársins 2013 og launakostnaður vegna nefnda. Einnig er tafla yfir launakjör bæjarfulltrúa.   Laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa árið 2013 Launakjör bæjarfulltrúa Ráðningarsamningur bæjarstjóra

Bingó

9. bekkur grunnskóla Grundarfjarðar er að safna fyrir útskriftarferð sem farin verður í haust. Bingóið verður haldið í grunnskólanum kl.17. þann 20. mars. 500 kr. spjaldið, veitingasala á staðnum. Fullt af veglegum vinningum frá fyrirtækjum á Snæfellsnesi og auðvitað eru allir velkomnir   Höfum gaman saman 9. bekkur grunnskólan Grundarfjarðar.      

Guðsþjónusta

Guðsþjónusta verður í  Grundarfjarðarkirkju sunnudaginn 23. mars kl.11:00.  

Fulltrúar í ungmennaráð

Grundarfjarðarbær óskar eftir fulltrúum til tilnefningar í ungmennaráð.   Í ungmennaráði eiga sæti fimm fulltrúar á aldrinum 15-21 árs, sem íþrótta- og æskulýðsnefnd tilnefnir og bæjarstjórn staðfestir skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga, og samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar.   Nefndarmenn fá greidda þóknun fyrir fundarsetu með sama hætti og fulltrúar í öðrum nefndum Grundarfjarðarbæjar.   Áhugasamir gefa haft samband við menningar- og markaðsfulltrúa í síma 895-7110 eða sent póst á alda@grundarfjordur.is

Háls-, nef og eyrnalæknir

Þórir Bergmundsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilsugæslunni Grundarfirði föstudaginn 28. mars  n.k. Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, í síma 432 1350  

Haförninn í hundrað ár - fræðsluerindi í Grundarfirði

Þriðjudagskvöldið 18. mars mun Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, halda fræðsluerindi um haförninn. Erindið hefst kl. 20.00 í Sögumiðstöðinni.   Nánari upplýsingar hér.