Þessa daga eru að berast með póstinum álagningarseðlar fasteignagjaldanna fyrir árið 2007. Eins og kunnugt er, voru fasteignir í þéttbýli Grundarfjarðar endurmetnar á síðasta ári. Heildarbreyting á fasteignamatinu varð allnokkur til hækkunar. Við þessu var brugðist í bæjarstjórninni og álagningarprósentur fasteignaskattsins voru lækkaðar. Mest var álagningarprósentan lækkuð á íbúðarhúsnæði eða úr 0,45% í 0,34%. Lóðarleiga var sömuleiðis lækkuð úr 1,5% í 0,8% á íbúðarhúsnæði. Álagningarprósentur fasteignaskatts og lóðarleigu á atvinnuhúsnæði voru einnig lækkaðar. Vatnsgjald er lagt á fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og samanstendur af "föstu gjaldi" sem lagt er á alla matshluta íbúðarhúsnæðis (ekki bílskúra) og breytilegu gjaldi sem miðast við fermetrafjölda eigna.