Forvarnardagurinn 2009

Forvarnardagur 2009 er haldinn í öllum grunnskólum landsins í dag, miðvikudaginn 30. september. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Munu 9. bekkingar vinna ýmis verkefni í tengslum við forvarnir. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins.  

Fjárhagsáætlun 2010

Hafin er vinna við gerð fjárhagsáætlunar Grundarfjarðarbæjar  fyrir árið 2010. Auglýst er eftir erindum, umsóknum, tillögum og ábendingum íbúa, félagasamtaka og fyrirtækja um mál sem varða gerð fjárhagsáætlunar. Þeir aðilar sem vilja koma með erindi, umsóknir, tillögur og/eða ábendingar er varða næsta fjárhagsár Grundarfjarðarbæjar eru hvattir til að skila þeim á bæjarskrifstofuna til skrifstofustjóra fyrir 16. október 2009. skrifstofustjóri  

Úr vigtarskúrnum

Nú er vertíð skemmtiferðaskipa lokið og heimsóknir í sumar voru 13 talsins. Þessi skip voru að samanlagðri stærð 300 þúsund tonn, báru með sér 7200 farþega auk 4000 áhafnarmeðlima. Til samanburðar var samanlögð stærð skipanna árið 2008 221 þúsund tonn, farþegar 6200 og 3000 í áhöfnum. Annað árið í röð tók sérlegur móttökuhópur á vegum hafnarinnar á móti gestum. Hópinn skipuðu nokkrir vaskir Grundfirðingar af yngri kynslóðinni sem skipulögðu skemmtidagskrá samsetta úr víkingaleikjum, matseld, söng og dönsum. Markaðsfulltrúi hafnarinnar, Shelagh Smith, er nýkominn af ferðakaupstefnu í Hamborg, Seatrade Europe, þar sem áfram var unnið að markaðssetningu Grundarfjarðarhafnar. Nú þegar hafa 10 skip verið bókuð fyrir næsta sumar. Að meðaltali eru skipin stærri en undanfarin ár. Stærsta skipið, Ocean Princess, er 77 þúsund tonn. Annars gengur lífið á höfninni sinn vanagang. Afli er þokkalegur. Framkvæmdir við höfnina ganga vel. Vinnu við öldudempandi flái var lokið í síðustu viku og einnig uppsteypu á landstólpa fyrir landgang. Undirbúningur stendur yfir fyrir sjósetningu nýrrar flotbryggju.

Blóðbankabíllinn á ferðinni.

  Blóðbankabíllinn verður í Grundarfirði við Samkaup þriðjudaginn 29. september kl. 12.00 - 17.00. Allir velkomnir.   Blóðgjöf er lífgjöf.

KONUR GETA BREYTT HEIMINUM

Fyrirlestur fjallar um: Áhrifamátt kvenna til að gera róttækar breytingar á heiminum sem við búum í  - nú í augnablikinu ÍSLANDI    

Baldur byrjar að sigla á sunnudaginn

Frétt á vef Skessuhorns 24. september 2009: Reiknað er með að Breiðafjarðarferjan Baldur komi aftur til heimahafnar í Stykkishólmi í lok vikunnar en skipið hefur sem kunnugt er verið í afleysingum fyrir Herjólf í siglingum milli lands og Vestmannaeyja. Siglingar Baldurs milli Stykkishólms og Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey, hefjast því aftur samkvæmt áætlun á sunnudaginn, þann 27. september.  Á þessum tíma frá 13. september síðastliðnum var samgöngum til Flateyjar þjónað fjórum sinnum í viku með Særúnu, farþegabát Sæferða. Þá hefur verið siglt tvisvar í viku til Brjánslækjar. Særún tekur yfir 100 farþega en getur ekki annast bíla- eða þungaflutninga. Særún er hins vegar snögg í ferðum og er til dæmis einungis um eina klukkustund á milli Stykkishólms og Flateyjar. 

Pub Quiz nr 2

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu stendur fyrir Pub Quiz spurningaleik á Kaffi 59 þriðjudagskvöldið 22. september kl 21:00. Þetta er í annað skiptið sem keppt er í þessum spurningaleik. Síðast voru spurningarnar íþróttatengdar og þá sigraði Team T-bone naumlega. Í þetta skiptið verða spurningarnar almenns eðlis úr daglegu lífi. Við í meistaraflokknum hvetjum sem flesta til að koma og taka þátt því þetta kostar bara 500 kr á mann og rennur allur ágóði í starf Meistaraflokks Grundarfjarðar.   Meistaraflokksráð. 

Aðalfundur foreldrafélags leikskólans

Aðalfundur foreldrafélags leikskólans verður haldinn þriðjudaginn 22. september klukkan 20:00 í leikskólanum. Hefðbundin aðalfundarstörf á dagskrá og veitingar í boði. Með kveðju, Stjórnin.  

Styrkir úr Íþróttasjóði

HSH hvetur aðildarfélög til að sækja um í sjóðinn.  Hægt er að fá aðstoð á skrifstofu HSH við umsóknaferlið. Sjá nánar hér.  

Bæjarstjórnin hugar að sameiningarmálum á Snæfellsnesi

Á 107. fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar þ. 10. september 2009 var eftirfarandi samþykkt:   „Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkir samhljóða að óska eftir viðræðum við  sveitarfélög á Snæfellsnesi um sameiningu sveitarfélaganna.        Greinargerð: Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningu sveitarfélaga.  Árið 2005 var tillögu um sameiningu sveitarfélaga á svæðinu hafnað í kosningum. Þá þegar var þó ljóst að umræða um þessi mál yrði tekin upp síðar og jafnvel fyrir lok þessa kjörtímabils.   Í kjölfar gjörbreyttra aðstæðna  í efnahagsumhverfinu hafa sveitarfélög gert fjölmargar ráðstafanir til að lækka kostnað, án þess þó að skerða grunnþjónustu. Sameining sveitarfélaga á Snæfellsnesi gæti verið liður í þeim aðgerðum og um leið styrkt samfélögin.“   Samkvæmt þessari samþykkt verða öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi send tilmæli um viðræður um sameiningarmál.