Svæðisskipulag Snæfellsness„Andi Snæfellsness - auðlind til sóknar” fékk, þann 26. nóvember, Skipulagsverðlaunin 2014. Það var stoltur og glaður hópur frá Snæfellsnesi sem kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur, til að taka við þessari viðurkenningu ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Alta, sem veitti faglega ráðgjöf við skipulagsgerðina.
Verðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti og í ár var dómnefnd skipuð af Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands, Tæknifræðingafélagi Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Ferðamálastofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Í ár var sérstök áhersla á skipulagsgerð í tengslum við ferðaþjónustu og samþættingu hennar við það byggða umhverfi og náttúru sem fyrir er. Einkum var skoðað hvernig faglega unnið skipulag gæti styrkt staðaranda og samfélög, til hagsbóta fyrir íbúa, ferðamenn og umhverfið.