Kirkjufellsfoss hefur orðið til sem sjálfsprottinn ferðamannastaður og hefur fjöldi gesta aukist gífurlega hratt. Staðurinn er orðinn einn vinsælasti áfangastaður og mest myndaðasti ferðamannastaður á Snæfellsnesi. Á síðustu árum hefur aðstaða við fossinn verið bætt, s.s. bílastæði og göngustígar, en sú aðstaða annar ekki þeim fjölda gesta sem kemur á svæðið. Vegna aukinnar umferðar ferðamanna að fossinum er mikilvægt að byggja betri umgjörð um þennan ferðamannastað til framtíðar; umgjörð sem tryggir öryggi vegfarenda, stýrir umferð gesta um svæðið, dregur úr álagi og lágmarkar sjónræn áhrif umhverfis fossinn. Grundarfjarðarbær áformar því að vinna deiliskipulag fyrir áfangastaðinn við Kirkjufellsfoss og nánasta umhverfi, í samvinnu við landeigendur.