Bæjarráð Grundarfjarðar samþykkti bókun á fundi sínum þann 17. október sl. þar sem lýst var yfir áhyggjum vegna hægagangs stjórnvalda varðandi viðbrögð við mögulegum síldardauða í Kolgrafafirði.
Bókunin er svohljóðandi:
„Bæjarráð Grundarfjarðar lýsir yfir áhyggjum vegna hægagangs stjórnvalda varðandi viðbrögð við mögulegum síldardauða í Kolgrafafirði. Á meðan nálgast síldin og bendir allt til þess að ekki verði minna um síld á svæðinu en verið hefur undanfarna vetur.
Á vegum umhverfisráðuneytis er unnið að gerð viðbragðsáætlunar um aðgerðir ef síld drepst í firðinum. Skynsamlegast er að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst. Tilraunir til að fæla síld frá því að ganga inn í fjörðinn, t.d. með ljósum eða hljóðum hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Eina leiðin til að tryggja að síld gangi ekki inn í Kolgrafafjörð er því að loka firðinum og koma þannig í veg fyrir mögulegt tjón sem gæti numið milljörðum króna fyrir þjóðarbúið.
Bæjarráð Grundarfjarðar skorar á ráðherra umhverfismála, sem jafnframt er sjávarútvegsráðherra að leyfa lokun fjarðarins strax. Kannað verði hversu langan tíma Vegagerðin þarf til framkvæmda sem nægja til að halda síld utan brúar. Um tímabundnar aðgerðir gæti verið að ræða, ef það er tæknilega mögulegt.
Mælingum sem nú fara fram er ætlað að varpa ljósi á áhrif þverunar fjarðarins á síldardauðann. Niðurstöður þeirra munu að líkindum ekki liggja fyrir fyrr en haustið 2014. Þá gæti stefnt í þriðja árið þar sem er hætta á síldardauða í Kolgrafafirði. Hér þarf að hafa hraðar hendur, enda var síldardauðinn síðastliðinn vetur skilgreindur sem náttúruhamfarir.“