Við erum góð í því sem er stórbrotið! Hjá okkur nýtur þú útivistar í stórbrotinni náttúru. Kirkjufell og Helgrindur eru listaverk á heimsvísu. Sólarlag að sumarkvöldi er stórkostlegt sjónarspil lita, logns, lands og sjávar. Vindasamir dagar í Grundarfirði geta meira að segja veitt þér upplifun á stóra skalanum! Inn á milli og allt um kring leynast fleiri faldar perlur, sem bíða þess að þú uppgötvir þær. Hér er listi með nokkrum stöðum sem vert er að skoða:

Kirkjufell

Kirkjufell er þekktasta kennileiti Grundarfjarðar og stendur stakt út í Grundarfjörð, aðskilið frá fjallgarðinum. Fjallið kastar skugga á bæinn fyrri hluta kvölds á sumrin en myndar eftir það tignarlegan bakgrunn sólseturs, séð frá bænum Grundarfirði. Hægt er að njóta útsýnis til Kirkjufells frá öllum áttum, úr bænum, ofan af fjallgarðinum þar sem eru merktar gönguleiðir, utan úr sveit og frá sjó er það stórkostlegt í öllum veðrum. Jarðfræði Kirkjufells og fjallanna í kring er merkileg og má sjá skýringar á upplýsingaskiltum á útsýnisstöðum við þjóðveginn.

    

Kirkjufellsfoss

Frá miðbæ Grundarfjarðar er hálftíma gangur út að Kirkjufellsfossi, um 2,5 km. Kirkjufellsfossar með Kirkjufell í baksýn er eitt mest myndaða landslag á Íslandi og hefur dregið að tugþúsundir erlendra ferðamanna mörg síðastliðin ár.

Grundarfoss

Grundarfoss er einn af hæstu fossum Vesturlands og mikilúðlegur í skuggalegu berginu þar sem hann steypist 70 m fram af hamrabrúninni.

Grundarfjarðarhöfn

Höfnin er lífæð samfélagsins og er ein af 10 kvótahæstu höfnum landsins. Áður fyrr var Grundarfjörður nefndur lífhöfn enda veður og sjólag rólegra en við eyjar og sker Breiðafjarðar. Dýpt fjarðarins gerir Grundarfjarðarhöfn tilvalda fyrir stærstu skemmtiferðaskip og fiskiskip, sem koma víða að til löndunar. Á aðkomusvæði skemmtiferðaskipa eru upplýsinga- og söguskilti í löngum röðum og grjóthörð listaverk alþýðulistamannsins Listons lífga upp á umhverfið í bland við litrík blóm að sumarlagi. Það er tilvalið að fylgja göngustígum frá höfninni meðfram strönd Framness yfir í Torfabót og njóta um leið útsýnisins til Kirkjufellsins og út til Melrakkaeyjar.

    

Sögumiðstöðin Grundarfirði

Við mælum með því að koma við í Sögumiðstöðinni til að kynna sér sögu ljósmyndunar í byggðinni. Sögusýning frá upphafi þéttbýlisins er sett saman úr ljósmyndum Bærings Cecilssonar sem tók myndir frá unglingsaldri meðan þéttbýlið byggðist upp, frá miðri tuttugustu öldinni. Leikfangasafn er í Þórðarbúð og við hjallinn stendur báturinn Brana frá Vatnabúðum sem er sexæringur með mótor.
Athugið: Vegna breytinga eru sýningarnar í Sögumiðstöðinni lokaðar. 

    

Grundarfjarðarkirkja

Kirkjan stendur hátt í þéttbýlinu, vígð 1966 og er nokkuð stórt hús með eitt af fyrstu safnaðarheimilunum sem byggt var við kirkju á Íslandi. Arkitektinn, Halldór Halldórsson, teiknaði líka Dalvíkurkirkju og innandyra eru sænsk áhrif Grétu Björnsson í litum og skreytingum. Altaristaflan er máluð af Halldóri Péturssyni sem var í sveit á Setbergi sem drengur. Í kirkjunni er ljósprentað eintak af Guðbrandsbiblíu en hún var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi og þá í 500 eintökum.

  

Sundlaugin í Grundarfirði

Sundlaugin og heitu pottarnir eru rétt við tjaldstæðið. Það er ljúft að liggja í heitu vatninu og njóta útsýnisins til fjallanna og fylgjast með skýjum og heiðríkju sumarsins. Á veturna má oft sjá norðurljósin dansa á heiðum kvöldum.

    

Grundarfjörður er góður fyrir börnin

Bærinn hefur upp á margt að bjóða fyrir börn og við mælum eindregið með því að koma við á leiksvæði grunnskólans. Svæðið er opið á kvöldin og um helgar, þegar skólastarf er í gangi, en alla daga vikunnar í júní, júlí og ágúst. Þar eru líka körfuboltavöllur, fótboltavöllur og hjólabrettarampur. Á veturna má renna sér á sleða í brekkunum kringum grunnskólann og á sumrin er ærslabelgurinn heilmikið aðdráttarafl.

    

    

  

 Frisbígolfvöllur 

Völlurinn er í skemmtilegu umhverfi rétt ofan við bæinn og er 9 holu völlur.

Hvað er frisbígolf - folf

Leikreglur

Gönguferðir í nágrenni Grundarfjarðar

Stuttar og langar gönguleiðir sem gefa möguleika til að njóta útiveru og hreyfingar í nágrenni bæjarins eða eftir gömlum þjóðleiðum upp í fjöllin.

Útivist

Útivistarfólk er eins og heima hjá sér í Grundarfirði. Boðið er upp á margs konar afþreyingu í bænum og nágrenninu, þar á meðal hestaferðir, kajaksiglingar, jöklaferðir, hvalaskoðun, golf, sjóstangveiði eða fuglaskoðun með báti. Hér er yfirlit yfir ferðaþjónustuaðilana í bænum:

    

Veitingastaðir og kaffihús í Grundarfirði
 
Það er tilvalið að koma við á einhverjum af veitingastöðunum og kaffihúsunum okkar þegar komið er í heimsókn til Grundarfjarðar: 

     

Hægt er að nálgast upplýsingar um aðra þjónustu og gistingu á síðunni Þjónusta í Grundarfirði.