Hverfastaurarnir í miðbænum
Hátíðin „Á góðri stund í Grundarfirði“ er hafin. Í gærkvöldi voru hverfin skreytt í gulum, rauðum, grænum og bláum litum. Hverfastaurarnir voru settir upp í miðbænum og er bærinn farinn að skarta sínu fegursta. Gestir eru farnir að streyma í bæinn og tjöld, tjaldvagnar, fellhýsi, hjólhýsi og húsbílar á víð og dreif um bæinn, ýmist á tjaldstæðum eða við heimahús. Veðrið er gott, hátt í 20 stiga hiti, sól og smá vindur og eru veðurspár hagstæðar fyrir helgina.
Grundarfjarðarvefurinn óskar öllum Grundfirðingum og gestum góðra stunda um helgina.