Þrettándinn, 6. janúar

Haldið er upp á þrettánda dag jóla með brennu og flugeldasýningu. Á þrettánda degi jóla fara jólasveinaarnir, Gríla og hennar hyski aftur til fjalla. Á þrettándanótt eru einnig álfar og huldufólk á ferðinni eins og trúað er um Nýjársnótt og eins gott að fara varlega þegar líður á kvöldið.

   

112-dagurinn

112-dagurinn er haldinn um allt land þann 11 febrúar ár hvert. 112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að aðeins þarf að kunna þetta einfalda símanúmer til þess að fá aðstoð í neyð.

Slökkvilið Grundarfjarðar, Björgunarsveitin Klakkur og áhöfn sjúkrabílsins nota tækifærið til að vekja athygli á neyðarvörnum og viðbrögðum við slysum með því að bjóða íbúum í heimsókn til að skoða aðstöðuna, bílana og tæknibúnað þeirra.

  

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur fyrsta sunnudag í júní og er tileinkaður sjómönnum þessa lands. Öll skip liggja við bryggju, fánum skrýdd, svo sjómenn og fjölskyldur þeirra geti glaðst með samborgurum sínum þennan dag. Á dagskrá eru hátíðahöld og ýmsir leikir og viðburðir fyrir alla fjölskylduna.  

  

  

17. júní

Þjóðhátíðardagurinn á Íslandi er haldinn hátíðlegur í Grundarfirði til að minnast stofnunar lýðveldisins þann 17. júní 1944.

  

Á góðri stund í Grundarfirði

Bæjarhátíðin í Grundarfirði er nefnd Á góðri stund. Hún stendur yfir síðustu helgina í júlí og hafa bæjarbúar skreytt hverfi bæjarins, hvert með sínum lit. Frá hverju hverfi streyma litskrúðugir íbúarnir í skrúðgöngum niður að höfn og skemmta sér með skemmtiatriðum og dansi langt fram kvöld.

https://www.facebook.com/groups/agodristund/

    

  

Réttir

Á haustin er réttað í sveitunum sín hvoru megin við þéttbýlið Grundarfjörð og rekið til réttar á tveimur stöðum. Í Hrafnkelsstaðabotni er safnrétt fyrir Framsveit og bæina í Kolgrafafirði. Í Útsveit reka bændur og búalið fé af fjalli og rétta sama dag.

Fjölskyldur og vinir bænda fjölmenna í göngur og réttir og rétta hjálparhönd þar sem þess er þörf og bæjarbúar geta kíkt við í nýju réttina á grundunum neðan vegar í Hrafnkelsstaðabotni.

  

Rökkurdagar

Menningarhátíðin Rökkurdagar er í október á hverju hausti. Þá er boðið upp á margskonar menningarviðburði í rökkrinu, áður en hættir að sjást til sólar um miðjan nóvember.

Facebook Rökkurdagar

  

Aðventudagur Kvenfélagsins

Kvenfélagið Gleym mér ei stendur fyrir fjölskylduskemmtun á fyrsta sunnudegi í aðventu þar sem félög og einstaklingar selja ýmsar vörur í sölubásum og kvenfélagið selur kókó og vöfflur. Dregið er í happdrætti kvenfélagsins, Grundarfjarðarbær veitir íþróttamanni ársins viðurkenningu og tilkynnir úrslit í ljósmyndasamkeppni ársins.

Seinni part dagsins er kveikt á bæjarjólatrénu og sungnir jólasöngvar með börnunum.

  

Ungbarnagjafir

Barnsfæðing er ánægjuleg viðbót við samfélagið. Samkvæmt venju síðan 2006 hefur foreldrum og börnum verið boðið til huggulegrar samverustundar í lok árs. Boðið er upp á kaffi og köku með bæjarstjóra og fulltrúum bæjarstjórnar, heilsugæslunnar og leikskólans sem hafa undirbúið gjafir til að færa nýju íbúunum í bæjarfélaginu.

 

 

 

Á góðri stund 2019: