Eins og fram kemur í fréttatilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur frá því í gær varð ekki nægilega góður árangur af borun eftir heitu vatni á Berserkseyri. Þetta eru að sjálfsögðu allmikil vonbrigði, en ekki neinn endir á málinu. Vísindamenn og stórnendur Orkuveitu Reykjavíkur munu nú leggjast yfir þau gögn og upplýsingar sem fram komu við borunina og meta hvaða skref er rétt að stíga næst. Einnig mun verða efnt til funda með fulltrúum bæjarstjórnarinnar og stjórnenda Orkuveitunnar til þess að meta og ákvarða um framhaldið. Þetta mun væntanlega seinka því að hitaveita komist í hús í Grundarfirði, en engin ástæða er ennþá til annars en að vænta þess að það muni gerast.