- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nú líður brátt að því að boranir eftir heitu vatni hefjist á Berserkseyri við Grundarfjörð. Verið er að leggja síðustu hönd á undirbúning með því að ljúka við planið sem borinn mun standa á auk þess sem flutningar á bornum og búnaði tengdum honum eru hafnir. Gangi allt að óskum hefst sjálf borunin í næstu viku og mun standa í um fjórar vikur.
Það eru Jarðboranir sem sjá um borunina og nota til hennar borinn Sleipni. Óðinn, sem þótti æðstur ása, átti hest með þessu nafni sem hafði átta fætur, var því afar fótfrár og gat flogið að auki. Þessi er nokkuð þungstígari því hann ferðast landleiðina á flutningabílum.
Sleipnir er enginn smásmíði - 300 tonn að þyngd - og þarf 17 flutningabíla til að flytja hann á milli staða. Borinn getur dýpst borðað 2.400 metra lóðrétt niður. Á Berserkseyri verður hinsvegar beitt stefnuborun og þá er hámarksdýpt holunnar 1.700 metrar. Hins er vonast til að gnægð vatns verði fundin áður en borholan verður svo djúp.
Sleipnir hefur verið notaður um árabil við borun á háhitaholum og kemur vestur frá borun á Nesjavöllum og þar áður á Hellisheiði. Upplýsingar um framvindu borunarinnar á Berserkseyri verða birtar á heimasíðum OR og Grundarfjarðar.