Vel tekið á móti nýjum Grundfirðingum.

Frá vinstri: Ólöf Guðrún og Brynjar Þór, Erna og Haukur Orri, Sigrún og Árni Stefán, Una Ýr og Steinunn Cecilía.   Í dag var tekið á móti nýjum Grundfirðingum og þeim færðar gjafir.  Hist var í Safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju.  Á þessu ári hafa fæðst níu börn en ýmsar ástæður urðu til þess að  aðeins fjórar mæður gátu mættu með börnum sínum. Feðurnir voru fjarri góðu gamni því flestir þeirra eru sjómenn.  Þetta skemmtilega verkefni er í  tengslum við fjölskyldustefnu Grundarfjarðarbæjar og er samvinnuverkefni Grundarfjarðarbæjar, heilsugæslunnar, Leikskólans Sólvalla, Rauða krossins, Slysavarnadeildarinnar Snæbjargar og Grundarfjarðarkirkju. Hér má sjá fleiri myndir.

Hjartastuðtæki að gjöf.

Frá vinstri: Eyþór, Runólfur, Unnur Birna, Anna María, Bryndís, Björn Steinar, Mjöll, Svanur, Ásthildur og Sigurborg.   Á þriðjudag afhentu Kvenfélagið Gleym mér ei, Lions og Rauði krossinn íþróttahúsi Grundarfjarðar hjartastuðtæki að gjöf. Tækið er alsjálfvirkt og því mjög einfalt í notkun. Það talar til notandans og gefur honum fyrirmæli á íslensku. Það krefst því engrar sérfræðiþekkingar þess er fyrstur kemur að einstaklingi í hjartastoppi. Grundarfjarðarbær þakkar kærlega fyrir höfðinglega gjöf. Hér má sjá fleiri myndir. 

Karatesýning

Karatesýning verður í dag, föstudaginn 3. desember kl: 17:40 í íþróttarhúsi Grundarfjarðar. Foreldrar, systkini, ömmur og afar, frænkur og frændur eru velkomin að horfa á og sjá hvað krakkarnir eru búnir að læra í vetur. Hlökkum til að sjá  ykkur Dagný Ósk, þjálfari  

Íþróttamaður ársins

  Á aðventuhátíð Kvenfélagsins Gleym mér ei s.l. sunnudag var íþróttamaður ársins 2010 valinn. Að þessu sinni hlaut Þorsteinn Már Ragnarsson titilinn fyrir glæsilegan árangur í knattspyrnu. Hann spilaði 34 leiki í ár með Víking frá Ólafsvík, í deildarbikar, VISA-bikar og í 2. deild. Hann skoraði alls 25 mörk og þar af 18 í deildinni og er næst markahæsti leikmaðurinn. Leikmenn í 2. deild kusu Þorstein efnilegasta leikmanninn og völdu hann í lið ársins. Að auki var hann valinn efnilegasti leikmaðurinn í lokahófi Víkings. Þess má einnig geta að í haust hefur hann verið til reynslu hjá knattspyrnuklúbbnum Vejle Boldklub í Danmörku. Þorsteinn er góð fyrirmynd fyrir yngri íþróttaiðkendur.   Einnig voru tilnefndar þær Sunna Björk Skarphéðinsdóttir fyrir afburðaárangur í blaki og Hugrún Elísdóttir fyrir glæsilega takta á golfvellinum.  

Aðalfundur Áhugamanna leikklúbbs Grundarfjarðar

Aðalfundur leikklúbbsins verður haldinn Miðvikudaginn 1 des. kl 17.00 í sögumiðstöð Grundarfjarðar.

Bókasafnið og jólin

Nýju bækunnar berast safninu jafnt og þétt fram að jólum. Fylgist með listanum.   2008-2009 skáldsögur í millisafnalánum lífga upp á framboðið af lestrarefni. Þessi skammtur verður sendur til baka um 10. janúar. Pólskar bækur komnar í millisafnaláni. 

Kosning til stjórnlagaþings

Kjörfundur í Grundarfirði vegna kosningar til stjórnlagaþings, laugardaginn 27. nóvember 2010, verður í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Kjörfundurinn stendur yfir frá kl. 11:00 til 22:00. Kjósendur þurfa að hafa með sér skilríki og framvísa þeim ef um er beðið. Kjörstjórn Grundarfjarðar  

Kveldúlfur fer á kreik.

Fundur hjá Kveldúlfi í kvöld, fimmtudag, í Sögumiðstöðinni kl. 20.30.

Aðventan í Grundarfirði.

Senn líður að jólum... Kveikt verður á jólatrénu í Grundarfirði n.k. sunnudag, þann 28. nóvember, kl. 17:30 við ljúfa jólatóna lúðrasveitar tónlistarskólans, með Baldur í fararbroddi. Kvenfélagið Gleym mér ei verður að vanda með sinn árlega jólamarkað sama dag í Samkomuhúsi Grundarfjarðar og örugglega eitthvað flott að skoða og kaupa fyrir jólin Lions verður svo með sinn jólabasar 9.-12. desember þar sem seld verða jólatré, fiskmeti og annað gott fyrir jólin! Viljum við þakka öllum þeim sem koma að aðventuviðburðum þetta árið fyrir að gera hana notalega og skemmtilega fyrir okkur Grundfirðinga. Einnig viljum við biðja þá, sem tök hafa á, að birta upp aðventuna hjá okkur með því að kveikja á jólaljósunum sínum.   Njótið aðventunnar í samvist hvers annars   Menningar – og tómstundanefnd Grundarfjarðar  

Tombóla til styrktar vatnsrennibraut.

Bjargey og Íris Birta   Þær Bjargey og Íris Birta komu í heimsókn á bæjarskrifstofuna í gær með afrakstur af tombólu sem þær héldu fyrir þó nokkru síðan. Vildu þær að peningarnir yrðu lagðir inn á vatnsrennibrautarsjóðinn. Alls söfnuðu þær 632 kr. Þeim stöllum eru færðar þakkir fyrir.