Undanfarna mánuði hefur Félag atvinnulífsins í Grundarfirði verið að vinna að því að endurskipuleggja starfssemi sína, og er þar horft til þeirra grunngilda sem upphaflega var haldið af stað með. Sem lið í þessari vinnu var ákveðið að halda atvinnuvegasýningu í Grundarfirði þar sem fyrirtækjum á svæðinu gæfist kostur á að kynna starfsemi sína fyrir heimamönnum og nærsveitungum.

Eins og með mörg spennandi verkefni fóru skemmtilegar hugmyndir fljótlega að spretta upp og hugmyndin að stækka. Nú er markmiðið að sýningin verði ekki aðeins atvinnuvegasýning heldur stór sýning á því sem hér í bæ er að finna. Þannig verði þetta einnig kynning á félagasamtökum Grundfirðinga, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, stofnunum Grundarfjarðarbæjar sem og ýmsum hæfileikaríkum listamönnum úr heimabyggð. Sýningin, sem fengið hefur vinnuheitið „Heimurinn okkar“, og haldin verður laugardaginn 19. mars í húsakynnum Fjölbrautaskólans, er því orðin samstarfsverkefni ofantaldra aðila.

 

Þeir sem hafa áhuga á þátttöku í sýningunni, eða  hafa hugmyndir og ábendingar um sýninguna, er bent á að hafa samband við markaðsfulltrúa Grundarfjarðarbæjar í síma 430-8500, eða á netfangið jonas@grundarfjordur.is.