- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Lífshlaupið, fræðslu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hófst 2. febrúar síðastliðinn og stendur til og með 22. febrúar. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja alla landsmenn til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er. Hægt er að taka þátt í vinnustaðakeppni, hvatningarleik fyrir grunnskólana og einstaklingskeppni.
Í vinnustaðakeppninni og hvatningarleik grunnskólanna geta vinnustaðir/skólar skráð sig til leiks og keppt við aðra vinnustaði/skóla um það hver hreyfir sig í fleiri daga og fleiri mínútur.
Einstaklingskeppnin er í gangi allt árið, en þar geta einstaklingar skráð sig til leiks og skrá inn sína hreyfingu daglega. Þegar einstaklingar ná ákveðnum fjölda daga á ári hverju geta þeir unnið sér inn brons-, silfur-, gull- og platínumerki Lífshlaupsins.
Inná vef Lífshlaupsins er listi yfir þau sveitarfélög sem eru að taka þátt í Lífshlaupinu og raðast sveitarfélögin upp í röð eftir hlutfallslegri þátttöku íbúa í sveitarfélaginu, það er, prósentan er reiknuð út sem fjöldi einstaklinga í sveitarfélaginu sem er skráður í Lífshlaupið deilt með heildarfjölda einstaklinga í sveitarfélaginu. Er þitt sveitarfélag komið inná listann? Og í hvaða sæti er það?
Við hjá íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands hvetjum þitt sveitarfélag til þess að hvetja vinnustaði, skóla og íbúa í þínu sveitarfélagi til þess að taka þátt og taka með því þátt í að bæta andlega og líkamlega heilsu íbúa í landinu.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um Lífshlaupið inná heimasíðu þess, www.lifshlaupid.is