Samantekt um íbúafund komin á vefinn

Samantekt um íbúafundinn sem haldinn var mánudagskvöldið 15. nóvember síðastliðinn er nú komin á vefinn. Samantekt um íbúafund 15.11.10

Kosning til stjórnlagaþings

Kosning til stjórnlagaþings verður laugardaginn 27. nóvember 2010. Á kjörskrá í Grundarfirði eru allir þeir  sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. laugardaginn 6. nóvember 2010, uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Kosningin fer fram í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Kjörfundur hefst klukkan 11:00 og stendur til 22:00. Kjósendur þurfa að hafa með sér skilríki.  

Opinn undirbúningsfundur hjá Leikklúbbi Grundarfjarðar.

Við ætlum að hafa opinn undirbúningsfund í samkomuhúsi Grundarfjarðar föstudaginn 19 nóv. kl 16.15.  Okkur vantar fólk sem er tilbúið að hjálpa við t.d sviðsmynd, búninga, förðun og tæknimálin.

Grundfirðingar standi saman

Um sjötíu manns mættu á íbúafund sem haldinn var í gærkvöld.  Á fundinum var aðallega fjallað um fjárhagsstöðu bæjarins og meginstefnu í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.  Fram kom að verða þarf viðsnúningur í rekstri um allt að 50 milljónir.  Þrátt fyrir erfiða stöðu töldu forsvarsmenn bæjarins mögulegt að ná góðum árangri en ljóst sé að draga þurfi verulega saman seglin.   Bæjarfulltrúar D-lista lögðu áherslu á að minni- og meirihluti starfi saman sem einn maður að því verkefni að bæta fjárhagsstöðu bæjarins.  Þá voru kynnt áform um áframhaldandi samstarf við íbúa.  

Framlagning kjörskrár vegna kosninga til stjórnlagaþings

Kjörskrá vegna kosninga til stjórnlagaþings hinn 27. nóvember 2010, verður lögð fram 17. nóvember 2010.   Kjörskráin mun liggja frammi til skoðunar á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar á opnunartíma skrifstofunnar  mánudaga - fimmtudaga frá kl. 09.30 - 15.30 og föstudaga frá kl. 09:30 – 14:00.   Bæjarstjórinn í Grundarfirði  

Augnlæknir.

Guðrún Guðmundsdóttir, augnlæknir, verður með móttöku á HVE Grundarfirði, fimmtudaginn 2. desember nk. Tekið er á móti tímapöntunum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Grundarfirði í síma: 430-6800.

Ræðukeppni Grunnskóla Grundarfjarðar 2010 - 2011

Ræðukeppnin fer fram á degi íslenskrar tungu 16. nóbember 2010 í íþróttahúsinu kl. 11.10. Tveir fulltrúar úr 5.-7. bekk keppa í fyrri hluta og í síðari hluta tveir fulltrúar úr 8.-10. bekk. Ræðuefnið að þessu sinni er „Draumaskólinn“ Sögumaðurinn góðkunni, Ingi Hans Jónsson, kemur í heimsókn til okkar í tilefni dagsins og segir okkur skemmtilega sögu. Foreldrar og aðrir gestir velkomnir. Aðatoðarskólastjóri  

Pökkun á fötum til Hvítarússlands.

  Frá vinstri: Kristín, Hulda, Lauga, Guðmunda, Auður, Hildur, Hanne, Eygló,Kristín og Nína.   Hugur og hönd starfa saman. Rauði krossinn þakkar enn á ný sínu frábæra handverksfólki sem lagði á sig mikla vinnu við að útbúa fatnað í ungbarnapakkana. Handverkshópurinn í Grundarfirði hittist nú í haust á föstudögum og vann ötulega við að sauma, prjóna og breyta eldri flíkum í nýjar.

Aðalfundur Sögumiðstöðvarinnar

Aðalfundur sjálfseignarstofnunar um Eyrbyggju – Sögumiðstöð verður haldinn fimmtud. 18. nóvember 2010 kl. 20 í Sögumiðstöðinni. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar og ársreikningar, umræða um rekstur og starfsemina framundan, stjórnarkjör og önnur mál.   Stofnaðilar og allir áhugasamir eru hvattir til að mæta!  Stjórn sjálfseignarstofnunar um Eyrbyggju – Sögumiðstöð  

Vel heppnaðir Rökkurdagar

Nýafstaðnir Rökkurdagar í Grundarfirði heppnuðust vel. Ágætis mæting var á flesta viðburði og virtist almenn ánægja með fjölbreytta og spennandi dagskrá.Mikið úrval var af ýmsum menningarviðburðum en að þessu sinni bar mikið á tónlist, kvikmyndum og listasýningum. Heimamenn létur til sín taka í skipulagninu viðburða en einnig komu góðir gestir að. Menningar-og tómstundarnefnd Grundarfjarðarbæjar vill þakka öllum þeim sem komu að Rökkurdögum kærlega fyrir.