Árið 1997 var haldin hátíð í Grundarfirði í tilefni af því að 100 ár voru liðin síðan verslunin flutti frá Grundarkampi í Grafarnes, þar sem þéttbýli Grundarfjarðar stendur nú. Sérstök nefnd undir forystu Inga Hans Jónssonar annaðist allan undirbúning hennar. Hátíðin þótti takast með eindæmum vel og í framhaldi af þeirri hátíð ákvað FAG að beita sér fyrir bæjarhátíð sem haldin yrði árlega síðustu helgina í júlí.

Hátíðin hefur alla tíð síðan þótt með betri bæjarhátíðum ekki síst fyrir gott samband við veðurguði og gríðarlega öfluga þátttöku heimamanna. Á þessum tíma hefur FAG verði hátíðarhaldari  með stuðningi fyrirtækja í bænum, Grundarfjarðarbæjar og fulltrúa  hverfanna fjögurra eftir að litaskiptingin tók gildi.

Tilgangur og hlutverk FAG átti frá upphafi að vera vettvangur fyrir samstarf og þróun atvinnulífs í Grundarfirði.  Vissulega var hátíðin liður í því að auka lífgsgildi íbúanna með þátttöku í vel heppnaðri hátíð.  Vöxtur hátíðarinnar hefur hins vegar gert það að verkum að mest allir kraftar félagsins sem og tekjur hafa runnið til hátíðarinnar og því hefur ekki reynst unnt að sinna öðrum verkum sem skyldi. Því hefur stjórn FAG ákveðið að gefa frá sér boltan og einbeita sér að sínum upphaflega tilgangi.

 

Stjórn FAG vill taka það sérstaklega fram að vinna við hátíðina hefur verið bæði  gefandi og ánægjuleg, og það er eindreginn vilji að hún lifi áfram. Ennfremur er FAG boðið og búið til að styðja við hátíðina með ráðum og dáðum enda hefur heilmikil reynsla safnast  upp á þessum árum. Nú þarf að finna nýjan farveg fyrir hátíðina og er FAG reiðubúið til að leggja sitt að mörkum í þeirri vinnu.

 

Stjórn FAG leggur til að stofnað verði sérstakt félag til að halda utan um hátíðina. Það félag yrði skipað einum fulltrúa frá hverju hverfi, einum fulltrúa frá Grundarfjarðarbæ og einum fulltrúa frá FAG. Þetta félag getur svo eftir atvikum skipulagt hátíðina eða ráðið sér framkvæmdarstjóra til verksins. Það getur vel verið að hentugri leið sé í kortunum og því er kallað eftir frjóum hugmyndum um mögulegt fyrirkomulag. Hugmyndum og ábendingum má koma til skila á bæjarskrifstofu Grundarfjarðarbæjar.

Að lokum vill stjórn FAG þakka kærlega þeim fjölmörgu aðilum, sem hafa unnið að hátíðinni öll þessi ár, samstarfið. Hátíðin okkar er frábær, sjáum til þess að hún verði það áfram.

 

Stjórn FAG