Slökkt á ljósastaurum

Ákveðið hefur verið að slökkva á ljósastaurum nú yfir bjartasta tíma ársins. Þegar hefur verið óskað eftir við Rarik að slökkva á staurunum og er þess vænst að það verði gert allra næstu daga. Slökkt verður til 26. júlí.   Tilraun var gerð með þetta í fyrra og tókst hún vel. Á þessum árstíma loga ljós á ljósastaurum á næturna þegar þungbúið er. Með þessari aðgerð næst nokkur orkusparnaður. Tímabilið sem slökkt verður á ljósastaurum er nú  lengt um tvær vikur í maí en stytt um tæpa viku í júlí.   Við vonum að bæjarbúar taki þessu jafn vel og í fyrra. 

Bæjarstjórnarfundur

149. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í Samkomuhúsinu, fimmtudaginn 10. maí 2012, kl. 16:30.   Fundir bæjarstjórnar eru opnir og er öllum heimilt að koma og fylgjast með því sem fram fer.  

Köttur í óskilum.

  Þessi köttur er í óskilum í Áhaldahúsinu og geta eigendur hans vitjað hans þar.  

Frá Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Skólaslit og vortónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar verða í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga sunnudaginn 13. maí kl. 14. Vonumst til að sjá sem flesta.  

Háls-, nef og eyrnalæknir

Þórir Bergmundsson háls-, nef og eyrnalæknir verður með móttöku á HVE Grundarfirði föstudaginn 25. maí n.k.   Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, sími 432 1350.    

Fundur með eldri borgurum

Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar boða til fundar með eldri borgurum  í safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju mánudaginn 7. maí kl. 15:00.   Allir eldri borgarar í Grundarfirði eru hvattir til að koma og eiga samræður um málefni sem á þeim brenna.   Bæjarstjóri

Vorið er komð

Hreinsum bæinn Nú er vorið loksins komið eftir langan vetur. Búið er að sópa götur bæjarins og innan tíðar verða merkingar á götur málaðar. Þá er verið að undirbúa sumarstörfin í áhaldahúsinu en þau verða með svipuðu sniði og undanfarin ár. Áætlað er að ráða fleiri starfsmenn en áður í ýmis umhverfisverkefni.   Nokkurt rusl er á götum bæjarins eins og oft er á þessum árstíma. Gjarnan vilja menn kenna vetrinum um sóðaskapinn og enn aðrir kenna því um að starfsmenn bæjarins hirði rusl ekki nógu oft. Ástæðan fyrir rusli á götum og torgum er okkur mun nær, þ.e. að rusli er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur. Það er því okkar eigin umgengni sem skiptir mestu máli. Göngum snyrtilega um bæinn okkar, okkur sjálfum og gestum okkar til ánægju.   Mánudaginn 7. maí og mánudaginn 14. maí munu starfsmenn áhaldahúss hirða garðaúrgang sem skilinn er eftir við lóðarmörk. Íbúar eru hvattir til þess að nýta tækifærið nú um helgina og næstu helgi að hreinsa sitt nánasta umhverfi. Mikilvægt er að ganga frá ruslinu þannig að einfalt sé að hirða það.   Það er einkar ánægjulegt þegar íbúar sýna frumkvæði í umhverfismálum og eru öðrum til fyrirmyndar í þeim efnum og hvetja aðra til góðrar umgengni. Höldum því áfram, hvort sem það er með eigin umgengni, greinskrifum í blöð eða hvoru tveggja.  

Íbúaþingi frestað til hausts

Af óviðráðanlegum orsökum hefur íbúaþingi sem halda átti laugardaginn 5. maí verið frestað til haustsins.   Þess í stað verður boðið til íbúafundar síðar í mánuðinum.   Bæjarstjóri 

Tónleikar í sal FSN í kvöld

Vaskir nemendur í Stórsveit Snæfellsness halda þrenna tónleika í byrjun maí. Stórsveitin er skipuð nemendum í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er fyrsta starfsári hennar að ljúka. Tónleikarnir verða skemmtilegir fyrir alla aldurshópa. Við leggjum mikið upp úr að lögin séu skemmtileg og einnig að sé góður hljómur en leigt hefur verið gott hljóðkerfi fyrir alla tónleikanna. Miðaverð er aðeins kr. 1000 en frítt er fyrir börn og ungmenni að 18 ára aldri.   Tónleikarnir í Grundarfirði eru þeir síðustu í röðinni og verða haldnir í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga.Þessir tónleikar eru í samstarfi við Menningarráð Vesturlands.  

Gerum fínt!

Vorið er komið – og tími til að taka til hendinni!   Fimmtudaginn 3. maí 2012 stendur UMFG fyrir tiltektardegi og samveru á íþróttavellinum.   Markmiðið er að gera íþróttavöllinn og umhverfi hans snyrtilegt og aðlaðandi fyrir sumarið.   Íþróttasvæðið er nýtt á sumrin fyrir frjálsíþróttaæfingar, fótboltann, æfingar bæði yngri og eldri liða, þar eru haldnir fótboltaleikir og fjölmargir nýta sér hlaupabrautirnar til að ganga eða hlaupa á. Auk þess blasir íþróttasvæðið við þegar komið er inn í bæinn. Það skiptir því miklu máli að svæðið sé bæði snyrtilegt og sem hentugast til notkunar.