Hreinsum bæinn
Nú er vorið loksins komið eftir langan vetur. Búið er að sópa götur bæjarins og innan tíðar verða merkingar á götur málaðar. Þá er verið að undirbúa sumarstörfin í áhaldahúsinu en þau verða með svipuðu sniði og undanfarin ár. Áætlað er að ráða fleiri starfsmenn en áður í ýmis umhverfisverkefni.
Nokkurt rusl er á götum bæjarins eins og oft er á þessum árstíma. Gjarnan vilja menn kenna vetrinum um sóðaskapinn og enn aðrir kenna því um að starfsmenn bæjarins hirði rusl ekki nógu oft. Ástæðan fyrir rusli á götum og torgum er okkur mun nær, þ.e. að rusli er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur. Það er því okkar eigin umgengni sem skiptir mestu máli. Göngum snyrtilega um bæinn okkar, okkur sjálfum og gestum okkar til ánægju.
Mánudaginn 7. maí og mánudaginn 14. maí munu starfsmenn áhaldahúss hirða garðaúrgang sem skilinn er eftir við lóðarmörk. Íbúar eru hvattir til þess að nýta tækifærið nú um helgina og næstu helgi að hreinsa sitt nánasta umhverfi. Mikilvægt er að ganga frá ruslinu þannig að einfalt sé að hirða það.
Það er einkar ánægjulegt þegar íbúar sýna frumkvæði í umhverfismálum og eru öðrum til fyrirmyndar í þeim efnum og hvetja aðra til góðrar umgengni. Höldum því áfram, hvort sem það er með eigin umgengni, greinskrifum í blöð eða hvoru tveggja.