Kartöflugarðar á Kvíabryggju

Íbúum Grundarfjarðar er boðið upp á garðlönd við Kvíabryggju. Þeir sem vilja þiggja það geta snúið sér til starfsmanna Kvíabryggju. Þeir sem vilja vera með á póstlistanum okkar snúi sér beint til Sunnu, sunnabar (hjá) aknet.is.   Garðyrkjuvakt kvenfélagsins  

Gróðurmold

Undanfarin ár hefur Grundarfjarðarbær boðið garðeigendum að nálgast gróðurmold á gámastöðina, þeim að kostnaðarlausu. Ákveðið hefur verið að hætta að bjóða upp á þessa þjónustu og er garðeigendum bent á að snúa sér beint til söluaðila.

Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar

      Aðalfundur Skotfélagsins Skotgrundar verður haldinn fimmtudaginn 3.maí kl. 20:00 í félagshúsi Skotgrundar í Hrafnkelsstaðabotni. Við hvetjum félagsmenn til þess að fjölmenna á fundinn.Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu félagins www.skotgrund.123.is eða á facebook síðu félagsins. 

Bæjarstjórnarfundur

148. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í Samkomuhúsinu, fimmtudaginn 26. apríl 2012, kl. 16:30.   Fundir bæjarstjórnar eru opinir og er öllum heimilt að koma og fylgjast með því sem fram fer.  

Vortónleikar kirkjukórsins

  Í tilefni af Frakklandsferð kórsins verða haldnir tónleikar í Grundarfjarðarkirkju undir stjórn organistans Zolt Kantór mánudagskvöldið 30. apríl kl. 20:00.   Á ferð okkar um Frakkland heimsækjum við m.a. vinabæ okkar Paimpol þar sem við munum flytja sömu dagskrá og einnig tökum við lagið með kór Paimpolbæjar. Miðaverð 1.000.- kr. frítt fyrir börn.   Verið velkomin á tónleikana okkar Kirkjukór Grundarfjarðar

Er kominn tími fyrir klippingu?

Húseigendur og umráðamenn húseigna eru hvattir til að huga að frágangi girðinga, trjágróðurs og öðru sem liggur að götum, gangstéttum og gangstígum. Mikilvægt er að gróður í görðum hindri ekki vegfarendur. Bent er á 15. grein lögreglusamþykktar Grundarfjarðar. Sjá nánar samþykktina hér! Grundarfjarðarbær  

Ályktun bæjarráðs Grundarfjarðar vegna frumvarpa um sjávarútvegsmál

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 17. apríl 2012 var lögð fram aðsend ályktun sem send var öllum sveitarfélögum á landsbyggðinni um frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.   Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða.   „Bæjarráð Grundarfjarðar tekur undir fyrirliggjandi ályktun/undirskriftarsöfnun um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, þar sem Alþingi er sterklega varað við því að samþykkja þau.   Bæjarráð skorar á stjórnvöld að leiða sjávarútvegsmál til lykta með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt náist í sjávarútvegi og allri annarri auðlindanýtingu.   Bæjarráð Grundarfjarðar gerir einnig kröfu um að jafnræðis verði gætt við gjaldtöku náttúruauðlinda og komi til aukinnar gjaldtöku á sjávarútveginn renni hluti hennar til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en ekki beint til landshlutasamtaka. Þá vill bæjarráð minna á að skerðing þorskkvóta um 30% árið 2007 olli Grundarfirði verulegum skakkaföllum og er mikilvægt að sú skerðing gangi til baka.   Einnig mótmælir bæjarráð fyrirhugaðri skerðingu á föstum bótum vegna brests á veiðum á hörpuskel.“  

Laus störf í heimaþjónustu

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga leitar eftir starfskrafti til að annast heimilishjálp í Grundarfjarðarbæ og Stykkishólmsbæ. Æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Vinnutími eftir samkomulagi. Laun greidd skv. samningum SDS Frekari upplýsingar veitir Berghildur Pálmadóttir, ráðgjafi í síma 430-7804 eða í tölvupósti, berghildur@fssf.is Umsóknir berist Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga Klettsbúð 4,  Hellissandi, sími 430 7800 eða á netfangið berghildur@fssf.is     

Bókasafnsdagurinn 2012 - Lestur er bestur

Bókasafnsdagurinn 17. apríl er haldinn hátíðlegur á bókasöfnum um allt land. Skoðið vefsíðu bókasafnsins um daginn. Fylgist með viðtölum og fréttum í fjölmiðlum. Á bókasafni Grundarfjarðar er boðið upp á kaffi og safa. Það þarf ekki að eiga skírteini til að mega heimsækja bókasafnið. Hægt er að kaupa bækur, notaðar og nýjar, á 50-200 kr stykkið. Kíkið á Flökkubækurnar í andyrinu. Opið verður þennan þriðjudag fyrir hádegi kl. 10-12 og eftir hádegi kl 14-18.  

Morgunsund vorið 2012

Meðan á skólasundi stendur verður sundlaugin opin almenningi milli kl. 7:00-8:00 á morgnana frá mánudeginum 16. apríl 2012.   Laugardaginn 19. maí hefst sumaropnun sundlaugarinnar. Nánar auglýst síðar.