Í dag, 7. mars, verður skrifað undir samstarfssamning sem leggur drög að stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi. Svæðisgarðurinn verður eign allra Snæfellinga, en þeir aðilar sem hafa tekið að sér að leiða verkefnið og undirbúning eru sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi; Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit, og félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu; Ferðamálasamtök Snæfellsness, Snæfell - félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi, Búnaðarfélag Staðarsveitar, Búnaðarfélag Eyja- og Miklaholtshrepps og Búnaðarfélag Eyrarsveitar, ásamt SDS, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu. Áhugasamir aðilar um velferð Snæfellsness eru velkomnir í hópinn.