Óveður á Snæfellsnesi og allir vegir ófærir

Lögreglan í Ólafsvík varar fólk við ferðalögum því á bæði norðan- og sunnanverðu Snæfellsnesi sé hið versta óveður og allt ófært. Fjórir bílar hafi lent utan vegar á leið um Nesið í morgun og erfiðleikum hafi verið bundið að koma þeim til hjálpar. „Við hvetjum fólk til að hreyfa alls ekki við bíl og halda heldur kyrru fyrir,“ sagði varðstjóri á Ólafsvík við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is) af þessu tilefni.   Eftir „vorblíðu“ síðustu vikna er fólk orðið góðu vant og óneitanlega viðbrigði að fá svona snjóakafla, en sl. föstudag 1. apríl tók að snjóa í Grundarfirði (og víðar) - og reyndist ekki aprílgabb!   Snjókarlar risu á víð og dreif um bæinn um liðna helgi

Hitaveituframkvæmdir

Sunnudaginn 3. apríl komu bormenn Ræktunarsambandsins, sem nú vinna við borun vinnsluholu í Berserkseyrarodda, niður á fyrri vatnsæðina (sprungu) sem ætlunin var að sneiða og hittu þeir hana á um 380 metra dýpi. Blásið var úr holunni og að sögn dr. Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings mun rennslið varla hafa verið undir 20 l/sek. og hitinn um 80°C í vatnsæðinni. Svokallaðri skáholuborun er beitt og er hallinn á holunni um 23,8° frá lóðlínu.  

Enn eitt metið í Grundarfjarðarhöfn

Sjómenn í Grundarfirði slógu enn eitt löndunarmetið í marsmánuði en hann var sá stærsti til þessa. Heildarafli landaður í Grundarfjarðarhöfn í mars 2005 var 2.634 tonn samanborið við 1.946 tonn í mars 2004. Í meðfylgjandi töflu má sjá sundurliðun á lönduðum afla eftir tegundum bæði árin.   Tegundir 2005 2004 Þorskur 702.509  kg 785.623  kg Ýsa 268.860  kg 174.174  kg Karfi 663.996  kg 395.146  kg Steinbítur 294.223  kg 121.381  kg Ufsi 68.350  kg 69.978  kg Beitukóngur  kg  kg Rækja  kg  kg Langa  2.881  kg 1.740  kg Keila 1.051  kg 654  kg Gámafiskur 562.423  kg 309.448  kg Aðrar tegundir  69.878  kg 87.952  kg Samtals 2.634.171  kg 1.946.096  kg  

Einn fjölsóttasti vefur sveitarfélags

Vefur Grundarfjarðar (grundarfjordur.is) er einn fjölsóttasti vefur sveitarfélags á landinu og reyndar einn af mest sóttu vefjum landsins. Í vikunni 21.-27. mars voru 573 notendur sem litu 1.756 sinnum inn á vefinn. Flettingar á vefnum voru 5.103.  

UMFG fær góða gjöf !

Ungmennafélagi Grundarfjarðar var færð peninga gjöf síðastliðinn laugardag. Það var fyrirtækið G. Run sem færði félaginu 300.000 krónur. Gjöfin var afhent i afmælisfagnaði fyrirtækisins en fyrirtækið fagnaði 35 ára afmæli. Guðmundur Runólfsson stofnandi G. Run var einn af stofnendum UMFG og hefur hann unnið mikið og gott starf fyrir félagið.  Stjórn UMFG þakkar kærlega fyrir góða gjöf.

Ný stjórn hjá UMFG

Aðalfundur UMFG var haldin á Krákunni í mars. Ágætis mæting var á fundinn.Í aðal stjórn félagsins árið 2005 eru Eygló Jónsdóttir formaður, Dagbjört Lína Kristjánsdóttir ritari, Jófríður Friðgeirsdóttir gjaldkeri og Freydís Bjarnadóttir meðstjórnandi auk þess eru formenn ráða innan UMFG meðstjórnendur. Anna Júlía Skúladóttir og Guðmundur Jónsson gengu úr stjórn og þökkum við þeim fyrir þeirra störf.  

Búið að bora 300 metra

Borun vinnsluholu fyrir hitaveitu við Berserkseyri gengur vel. Í dag, 1. apríl, er búið að bora liðlega 300 m og styttist í að borinn hitti á fyrri æðina, sem er talin liggja á 340 m dýpi. Holan hefur verið fóðruð í 174 metrum. Enn hefur ekkert vatn komið inn í holuna og er því frekar þungt að ná svarfinu upp en þrátt fyrir það gengur verkið vel að sögn bormanns á svæðinu. Rétt í þessu er verið að hallamæla holuna.

Ölkeldudalur lýstur upp

Starfsmenn RARIK vinna nú að því að setja upp ljósastaura fyrir Grundarfjarðarbæ, en staðið hefur til í nokkurn tíma að fá þessa lýsingu upp á hinum nýja Ölkelduvegi. Settir verða upp 14 ljósastaurar á Ölkelduvegi, 1 efst á Hrannarstíg og 3 staurar efst á Borgarbraut gegnt Grunnskóla og íþróttahúsi. Ennfremur verða setter upp 3 minni staurar við göngustíg á milli Grundarfjarðarkirkju og Dvalarheimilis og íbúða eldri borgara, til að bæta lýsingu á því svæði.  

Húðsjúkdómalæknir á Snæfellsnesi

Gísli Ingvarsson húðsjúkdómalæknir mun frá og með apríl mánuði verða með móttöku á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar. Hann gerir ráð fyrir að koma með reglulegu millibili næstu mánuði, en fyrsta móttakan verður föstudaginn 8. apríl nk. Tekið er á móti  tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma: 438-6682. 

Harðbakur í Grundarfjarðarhöfn á 30 ára afmælisdeginum

Harðbakur EA-3 landaði í dag rúmum 100 tonnum af karfa til vinnslu hjá Guðmundi Runólfssyni. Skipið kemur hér í höfn á þeim degi er 30 ár eru liðin frá því að hann kom fyrst til landsins, þá í eigu ÚA. Harðbakur EA er 68 metra langt stálskip, smíðað á Spáni.   Skipverjar fengu tertu í tilefni dagsins, en það er útgerðarfyrirtækið Brim hf. sem á skipið í dag.