FSN tekur þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna

Í kvöld, laugardaginn 16. apríl kl. 21.00, verður bein útsending á RÚV frá hinni árlegu Söngkeppni Félags framhaldsskólanema sem fram fer í Íþróttahöllinni á Akureyri. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tekur nú í fyrsta sinn þátt í keppninni, en fulltrúi skólans verður Sigurbjörg Eva Stefánsdóttir (úr Staðarsveit) sem mun syngja lagið Ekkert breytir því með Sálinni hans Jóns míns. Sigurbjörg sigraði í undankeppni FSN fyrir söngkeppnina, þann 9. mars sl. Hópur nemenda úr FSN hélt til Akureyrar í gær til að fylgjast með keppninni og hvetja sinn keppanda.

Borun vinnsluholu við Berserkseyri

Búið er að bora vinnsluholuna fyrir hitaveitu við Berserkseyri niður á 500 metra dýpi. Borun hefur gengið hægt undanfarna daga vegna þess að berglögin eru mjög hörð. Í gær brotnaði strengur og hefur farið talsverður tími í viðgerðir síðan og að ná strengnum upp úr holunni. En borun hófst að nýju um hádegið í dag og verður borað alla helgina.

Stóra upplestrarkeppnin

Stóraupplestrarkeppni 7. bekkinga á norðanverðu Snæfellsnesi fór hátíðlega fram í gær, 13. apríl í Stykkishólmskirkju. Alls tóku níu keppendur þátt, þrír frá hverju bæjarfélagi en þeir höfðu verið valdir sem fulltrúar hvers skóla fyrir sig í undankeppnum sem nýlega eru afstaðnar. Fulltrúar Grunnskóla Grundarfjarðar voru þær Alexandra Geraimova, Dagfríður Ósk Gunnarsdóttir og Silja Rán Arnarsdóttir.

www.grundarfjordur.is

120 fréttir hafa verið birtar á vefsíðu Grundarfjarðarbæjar það sem af er árinu. 104 dagar, þar af 70 virkir dagar, eru liðnir hafa því að meðaltali verið skráðar tæplega tvær fréttir hvern virkan dag.

Aflafréttir

Heildarafli íslenskra skipa í mars sl. var 212.800 tonn samanborið við 264.900 tonn í mars 2004. Af heildinni voru 2.634 tonnum landað í Grundarfjarðarhöfn í mars sl. samanborið við 1.946 á sama tíma í fyrra eins og kom fram hér á vefsíðu Grundarfjarðarbæjar fyrr í apríl. Heildarafli íslenskra skipa var tæpum 20% minni í mars 2005 heldur en í mars 2004 en heildarafli landaður í Grundarfjarðarhöfn jókst um 35% á milli marsmánuða 2004-2005.   Sótt í frétt á  mbl, 14. apríl 2005.

Héraðsmeistaratitill í blaki kvenna!

A lið UMFG:  Niki, Sædís, Jófríður, Helga, Hanna Sif, Sirrý og Anna María  Þriðjudaginn 12. apríl var héraðsmót í blaki haldið í Stykkishólmi. UMFG fór með þrjú lið á mótið, eitt í A deild og tvö í B deild. A liðinu tókst að endurheimta titilinn aftur frá árinu 2003 með 2-0 sigri við Snæfell, 2-0 sigri við Víking Ólafsvík og 1-1 jafntefli við Reyni Hellissandi sem nægði til sigurs. Í B deild urðu liðin frá UMFG í 2. og 3. sæti. Mótið var vel heppnað og skemmtilegt og leikmenn ánægðir með þann góða árangur sem náðist.

Bæjarstjórnarfundur 14. apríl

56. fundur bæjarstjórnar verður haldinn fimmtudaginn 14. apríl kl. 17.00 í samkomuhúsinu. Á dagskrá eru m.a. fundargerðir nefnda og ráða, fyrri umræða um ársreikning 2004, tillaga um byggingarframkvæmdir við leikskóla, tillögur um úrvinnslu á niðurstöðum íbúaþings, umræða um málefni vatnsveitu og um stöðu sorpmála, lokatillaga sameiningarnefndar um sameiningu sveitarfélaga, frumvarp um breytingu á tekjustofnalögum, önnur umræða um gjaldskrá fyrir búfjáreftirlit og um samþykkt um kattahald, o.fl. Fundurinn er öllum opinn.   Bæjarstjóri

Þrír héraðsmeistaratitlar!

Þriðja og síðasta héraðsmót HSH í fótbolta var haldið í Stykkishólmi á sunnudaginn. 7. og 6. flokkur byrjuðu að spila og fengu allir keppendur viðurkenningarpening fyrir þátttökuna. Hjá 5.,4. og 3. flokki er keppt um sæti og var árangur UMFG glæsilegur héraðsmeistarar í öllum flokkunum. Hér er mynd af liði 3. flokks.   Elvar þjálfari, Steinar,Erling,Þorsteinn,Arnar Dóri,Heimir,Egill og Ingólfur  

Námskeið á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands

Vakin er athygli á námskeiði Símenntunarmiðstöðvarinnar sem ber yfirskriftina „Reiðistjórnun barna og unglinga“. Námskeiðið verður haldið í Grundarfirði dagana 14. - 15. apríl. Námskeiðið er opið öllum og fer skráning fram á heimasíðu Símenntunarmiðstöðvarinnar, www.simenntun.is. Einnig er vakin athygli á einstaklingsnámskeiðinu „Læsi fullorðinna“.  

Af hitaveituframkvæmdum

Borun vinnsluholu við Berserkseyri gengur rólega. Berglög eru mjög hörð á því dýpi sem borinn er kominn í en búið er að bora 450 metra. Í nótt og í morgun hefur holan dýpkað um 1-2 metra klukkustund. Starfsmenn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða byrjuðu að bora á vöktum að nýju í gær eftir helgarfrí frá því á fimmtudag í síðustu viku.