Franskir nemendur í heimsókn í Grundarfirði

Franskir nemendur frá Paimpol eru nú í heimsókn í Grundarfirði og verða til 11. maí.  Heimsóknin er liður í samstarfsverkefni á milli skólanna sem byggist á verkefnavinnu, tölvusamskiptum og gagnkvæmum heimsóknum. Frakkarnir gista heima hjá 9. bekkingum sem þeir hafa verið í tölvusamskiptum við í vetur. Nemendur 9. bekkjar Grunnskóla Grundarfjarðar fara til Frakklands þann 30. maí nk. og verða þeir á heimilum Frakkanna fyrri hluta ferðarinnar en fara síðan til Parísar og verða þar í 3 daga. Áætluð heimkoma er 12. júní.  Það má búast við að Frakkarnir setji svip á bæinn þessa daga og að sjálfsögðu tökum við vel á móti þeim. Meðfylgjandi myndir voru teknar á Hótel Framnesi þar sem hópurinn, Íslendingar og Frakkar, snæddi saman.

Björgunarsveitin Klakkur og Unglingadeildin Pjakkur

Fyrir skemmstu fóru þrír úr unglingadeildinni Pjakk á námskeiðið Björgunarmaður 1 á Gufuskálum. Þetta námsekið er haldið á vegum Björgunarskóla Landsbjargar og er í heildina 9 dagar. Fulltrúar Pjakks voru þeir Gísli Valur Arnarson, Ólafur Kristinn Skarphéðinsson og Gústav Alex Gústavsson. Á námskeiðinu fá þeir alla grunnþjálfun á því sem björgunarmaður þarf að hafa til að geta hafið störf í björgunarsveit, s.s. rötun, fjallamennska, leitartækni, fyrsta hjálp, veðurfræði til fjalla og fl.

Framhaldsskólanám í grunnskólunum

Nýlega var gert samkomulag milli skólastjóra grunnskóla á Snæfellsnesi og skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga um að nemendum 10. bekkja í grunnskólum Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar næsta skólaár standi til boða að stunda nám í FSN í kjarnaáföngum fyrsta árs námsefnis framhaldsskóla samhliða námi í 10. bekk.

Hjólað í vinnuna - vinnustaðakeppni

Minnt er á fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, „Hjólað í vinnuna“, sem verkefnið „Ísland á iði“ mun standa fyrir dagana 2. - 13. maí n.k. Meginmarkmið „Hjólað í vinnuna“ er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, hagkvæmum og umhverfisvænum samgöngumáta. Keppt er í 6 fyrirtækjaflokkum um flesta daga og flesta km, hlutfallslega miðað við fjölda starfsmanna í fyrirtækjum. Allir þeir sem nýta eigin orku til að koma sér til vinnu s.s. hjóla eða ganga geta tekið þátt.

Nýr verkstjóri í áhaldahúsi

Geirfinnur Þórhallsson sem verið hefur verkstjóri í áhaldahúsi Grundarfjarðar sl. 5 ár lætur af störfum hjá Grundarfjarðarbæ í dag.  Í hans stað hefur verið ráðinn Jónas Pétur Bjarnason, en fimm umsækjendur voru um starf verkstjóra.  

Af hitaveituframkvæmdum

Eins og áður hefur komið fram hér á vefnum hefur borun ekki gengið vel undanfarna daga. Mánudaginn 18. apríl sl. slitnaði strengur í annað sinn og hefur reynst þrautin þyngri að ná brotunum upp úr holunni.  

Hver metmánuðurinn á fætur öðrum

Grundarfjarðarhöfn Meðfylgjandi frétt birtist í Morgunblaðinu 13. apríl sl. Höf: Gunnar Kristjánsson   Það sem af er þessu ári hefur óvenjumikill fiskur farið um höfnina í Grundarfirði. Af þeim þremur mánuðum sem liðnir eru hefur mars verið sá stærsti en í þeim mánuði var landað   2.634 tonnum samanborið við 1.946 tonn í mars 2004. Fyrstu þrjá mánuði ársins lætur nærri að um 2000 tonnum meiri afli hafi komið á land en sömu mánuði í fyrra. “ Við erum svo heppin að eiga hér mjög sterk útgerðafélög sem eru undirstaðan fyrir góðu gengi hafnarinnar” segir Hafsteinn Garðarsson hafnarvörður þegar hann er inntur eftir ástæðu þessara meta nú.   Þennan dag voru þrjú togskip í höfn, f.v. Helgi SH, Þorvarður SH og Kaldbakur EA, Hafsteinn stendur á Litlu-bryggjunni sem brátt víkur fyrir nýrri og verður þá hafnaraðstaðan enn betri.

Eldur í Þorvarði SH 129

Litla bryggja í morgunUm kl. 9:00 í morgun kom upp eldur í vélarrúmi í Þorvarði SH 129. Slökkvilið Grundarfjarðar sýndi skjót viðbrögð og var komið niður að höfn nokkrum mínútum eftir að brunalúður bæjarins fór í gang. Áhöfn skipsins hafði náð að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á staðinn svo betur fór en á horfðist.

Íbúar í Sæbóli athugið!

Vatnslaust verður í Sæbóli frá kl. 20:00 í kvöld og frameftir kvöldi vegna endurnýjunar brunahana.   Verkstjóri

Garðaúrgangsgámur

Búið er að setja upp garðaúrgangsgáminn við gámastöðina. Athugið að eingöngu má setja í hann garðaúrgang en ekki svarta ruslapoka eða annað þess háttar. Garðaúrgangsgámurinn við gámastöðina