- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Stóra upplestrarkeppnin var haldin í miðrými Grunnskóla Grundarfjarðar s.l. fimmtudag og voru 8 upplesarar að þessu sinni. Stóðu nemendur sig með stakri prýði og frábært að sjá hversu miklum framförum þeir voru búnir að ná á þeim tíma, frá því byrjað var að æfa textana.
Í dómnefnd sátu Kolbrún Reynisdóttir, Ragnheiður Þórarinsdóttir og Sólrún Guðjónsdóttir og voru þær ekki öfundsverðar af því starfi. Nemendur byrjuðu á að lesa upp dagbókarfærslur úr bókinni Dagbók Berts eftir Anders Jacobsson og Sören Olsson, stórskemmtilegir textar og ánægjulegt eyrnakonfekt. Í seinni umferð lásu svo nemendur ljóð að eigin vali sem gekk afar vel hjá þeim. Boðið var upp á kaffi og með því í hléi á meðan dómnefndin réði ráðum sínum. Kynnti Sólrún síðan úrslitin en þeir nemendur sem komust áfram á lokahátíð keppninnar, sem verður haldin 15. mars í Snæfellsbæ, voru Álfheiður Inga Ólafsdóttir, Krisbjörg Ásta Viðarsdóttir og Svana Björk Steinarsdóttir. Fengu þær gjafabréf frá Hrannarbúðinni í verðlaun sem og allir fengu þátttökuviðurkenningu. Þetta er alltaf jafn skemmtileg stund og notarleg.
Hér má sjá myndir frá keppninni.