Bæjarstjórnarfundur

 Aukafundur verður haldinn í bæjarstjórn Grundarfjarðar fimmtudaginn 22. janúar kl. 17:00 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Á dagskrá eru mótmæli iðnaðarmanna á Snæfellsnesi vegna samnings um byggingu framhaldsskóla.   Bæjarstjóri

Íslandsmóti hjá 3. og 4. flokki kvenna lokið

Þá hafa stelpurnar lokið keppni á íslandsmótinu í knattspyrnu innanhúss.  4. flokkur spilaði í valsheimilinu og gekk frábærlega vel.  3. flokkur spilaði í Digranesi, þeim gekk ekki eins vel en öðluðust dýrmæta og góða reynslu.

Fyrirtækjalisti á heimasíðunni

Fyrirtækjum í Grundarfirði gefst kostur á að vera skráð á heimasíðu bæjarins. Nú þegar hafa mörg fyrirtæki verið sett á fyrirtækjalistann undir flipanum "Fyrirtæki". Ætlunin er að skrá grunnupplýsingar um fyrirtæki, að hámarki 4 línur, ásamt helstu símanúmerum, netföngum og vefsíðum.    Ef fyrirtæki vantar á listann sem óskað er eftir að verði skráð þar, sendið þá tölvupóst á netfangið bjorn@grundarfjordur.is með upplýsingum um fyrirtækið.   bsp

Kalli vann!

Karl B. Guðmundsson sigraði í Stjörnuleit, sem lauk í kvöld. 150 þúsund atkvæði bárust meðan á síðasta þættinum stóð en keppnin var sýnd beint á Stöð 2 frá Smáralind. Karl fékk 49% greiddra atkvæða, Jón Sigurðsson, fékk 32% atkvæða og Anna Katrín Guðbrandsdóttir 19%.   Eins og margir Grundfirðingar vita óx Kalli úr grasi hér í Grundarfirði og óskum við honum hjartanlega til hamingju.    

Firmamót í blaki

Á milli jóla og nýárs var haldið firmamót í blaki til styrktar okkur blakkonum í bænum.  Þátttaka var góð og fimm lið tóku þátt, fjögur frá Grundarfirði og eitt frá Ólafsvík.  Hörkustemning myndaðist á pöllunum í úrslitaleiknum en þar áttust við sterkt lið Kóna úr Ólafsvík og lið Grundavals.  Það fór svo að Grundaval vann mótið eftir mikla baráttu. 

2. héraðsmót vetrarins

2. héraðsmót vetrarins í fótbolta verður haldið í Stykkishólmi helgina 7-8 febrúar (þorrablótshelgina) 6., 7. og 5. fl karla spila laugardaginn 7.feb,  4.og 3. fl karla spila svo sunnudaginn 8. feb.   Ekki er komin dagsetnig á því hvenær stelpurnar spila sína umferð á héraðsmótinu en það verða nánari fréttir af því síðar. 

2. flokkur kvenna á íslandsmóti

Þá hefur 2.flokkur kvenna lokið keppni á íslandsmótinu innan húss. Stelpurnar fóru á  Skagann á laugardaginn og stóðu sig alveg ágætlega þó að þær hafi ekki unnið nema einn leik, en þær voru að keppa við stelpur sem eru búnar að vera að æfa saman í allan vetur en þar sem okkar stelpur eru sumar í burtu í skóla hafa þær ekki verið að æfa mikið í vetur.    

Fasteignagjöld 2003

Þeir greiðendur fasteignagjalda 2003 sem enn lúra á ógreiddum greiðsluseðlum eru eindregið hvattir til þess að drífa sig í banka og greiða þá nú þegar.   Innan tíðar verða ógreidd fasteignagjöld send lögmönnum til innheimtu. Vinsamlegast forðist óþarfa kostnað og óþægindi.   Skrifstofustjóri    

5. flokkur á íslandsmóti í knattspyrnu

3.janúar tók 5.flokkur karla þátt í íslandsmótinu í knattspyrnu innanhúss og var mótið haldið í KR húsinu.   Liðið var skipað leikmönnum frá UMFG og einnig voru nokkrir með frá Víking Ólafsvik. Liðinu gekk ágærlega þó að fyrsti leikurinn sem var á móti KR hafi verið skellur,við töpuðum 1-7. Næsti leikuir var á móti Bolungarvík og hann unnum við 1-6 glæsilegt það. Þá var komið að leiknum Fylkir- UMFG hann fór þannig að Fylkir náði að sigra 4-3. Síðasti leikur okkar var á móti UMF Bess og tapaðist hann 3-4 við enduðum þó í 4. sæti riðilsins sem er alveg ágæt fyrir ekki stærra félag.   Um næstu helgi munu svo stelpurnar í 2. flokk mæta á Akranes og taka þátt í íslandsmótinu þar.  

Húsaleigubætur árið 2004

Athygli er vakin á að samkvæmt lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997 skal endurnýja umsókn um húsaleigubætur árlega í upphafi árs og gildir umsóknin til ársloka.   Umsækjendur um húsaleigubætur í Grundarfjarðarbæ eru minntir á að skila umsókn fyrir árið 2004 til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, Klettsbúð 4, 360 Hellissandur, eða til bæjarskrifstofu Grundarfjarðar, fyrir 16. janúar 2004.