Aðalfundur Hestaeigendafélags Grundarfjarðar

Aðalfundur Hestaeigendafélags Grundarfjarðar verður haldinn í Fákaseli, mánudaginn 22. mars,  kl. 20:00. 

Bæjarstjórnarfundur

116. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í Samkomuhúsinu, miðvikudaginn 17. mars 2010, kl.16.15. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer.

Aðalfundur Búnaðarfélags

Aðalfundur Búnaðarfélags Eyrarsveitar verður haldinn á Hótel Framnesi sunnudaginn 21. mars 2010 næstkomandi og hefst kl.14.00 Venjuleg aðalfundarstörf. - Stjórnin.

Farin til Miami að kynna Snæfellsnes

Skessuhorn 12. mars 2010: Alls koma 13 skemmtiferðaskip til Grundarfjarðar í sumar og áfram er unnið að markaðssetningu hafnarinnar fyrir skemmtiferðaskip. Í dag heldur Shelag Smith frá Grundarfirði til Miami í Bandaríkjunum á vegum Grundarfjarðarhafnar og tekur þar þátt í stórri sýningu sem haldin er fyrir útgerðir skemmtiferðaskipa og stendur yfir frá 15. – 19. mars. “Við förum 14 Íslendingar þangað á vegum Cruse Iceland frá 11 fyrirtækjum og stofnunum að kynna mismunandi kosti fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Ég er ekki bara að kynna höfnina heldur allt sem er í boði á Snæfellsnesi því skemmtiferðaskip koma ekki bara út af höfninni þótt hún sé góð. Það þarf eitthvað að vera í boði fyrir farþegana,” segir Shelag. 

" Velkomin í bíó "

Lúðrasveit tónlistarskólans heldur tónleika þann 12. mars n.k. í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga kl. 20:00. Ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, því leikin verður tónlist úr kvikmyndaheiminum. Tónleikarnir kallast "Velkomin í bíó". Mikið verður um dýrðir, t.a.m. verða sýnd brot úr kvikmyndunum sem tengdar eru hverju lagi. Á boðstólnum verða lög úr sígildum myndum sem allir þekkja, s.s. Star Wars, Indiana Jones, Lord of the Rings, Austin Powers, Batman, James Bond og fleiri og fleiri.

Svei attan! úr Grundarfirði

Skessuhorn 10. mars 2010: Svei attan! er fyrirsögn á heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag frá eigendum og starfsfólki Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði. Þar segir að ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi sé í þann veginn að lögfesta breytta úthlutun aflaheimilda fyrir karfa sem vegi alvarlega að rekstrargrundvelli fyrirtækisins því ekkert annað fyrirtæki á Íslandi sé jafn háð veiðum og vinnslu gullkarfa og Guðmundur Runólfsson hf. Þess vegna bitni breyttar úthlutunarreglur sérlega illa á því. Þá hefur bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar sent frá sér ályktun um sama mál þar sem Alþingi er hvatt til þess að staldra við og skoða nánar fyrirhugaða skiptingu á veiðiheimildum fyrir karfa.

Til kattaeigenda

Töluvert hefur borið á ónæði af völdum katta upp á síðkastið. Kattaeigendum er því bent á að kattahald í þéttbýli Grundarfjarðar er óheimilt nema með sérstakri undanþágu og leyfi til kattahalds. Í dag er virkt leyfi fyrir einn kött í bænum.   Kattaeigendur eru hvattir til að sækja um leyfi til kattahalds í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um kattahald frá árinu 2005. 

Árshátíð unglingadeildar grunnskólans

Fimmtudaginn 11. mars n.k. halda nemendur unglingadeildar grunnskólans árshátíð. Að þessu sinni verður hún með því sniði að sett er upp sýning þar sem á boðstólnum verður dans, söngur, tónlist, myndbönd og margt fleira. Sýningin verður í samkomuhúsinu og hefst klukkan 17:30.   Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu grunnskólans.  

Auglýsa eftir umhverfisfulltrúa á Snæfellsnes

Skessuhorn 8. mars 2010: Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi auglýsir nú eftir umhverfisfulltrúa til að sinna umhverfismálum sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi. Um er að ræða 100% stöðu, sem felur í sér vinnu að og umsjón með sjálfbærnivottun Snæfellsness. Um er að ræða krefjandi og fjölbreytt starf sem getur falið í sér tækifæri til að hafa víðtæk áhrif á sviði umhverfismála. Umsækjandi þarf að hafa lokið háskólanámi í umhverfisfræði eða náttúrufræði en framhaldsmenntun á háskólastigi er æskileg. Færni í að miðla upplýsingum á rituðu og töluðu máli og góð enskukunnátta er nauðsynleg. Sjá nánar á vef Náttúrustofu Vesturlands; www.nsv.is   

Pólverjar sigursælir á Northern Wave

Af vef Northern Wave.   Þriðju Northern Wave hátíðinni lauk í dag og hefur hátíðin aldrei verið betur sótt en í ár. Fullt hús var nánast allan laugardaginn en talið er að um hundrað manns hafi setið í gegnum þær átta klukkustundir af stuttmyndum sem í boði voru. Hin mikla fiskisúpuveisla var haldin á fiskmarkaði Grundarfjarðar á laugardaginn og er óhætt að segja að hún hafi slegið í gegn bæði hjá Grundfirðingum og gestum hátíðarinnar en rúmlega þrjú hundruð manns sóttu veisluna.