- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skessuhorn 6. maí 2010:
Forsvarsmenn Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði hafa ákveðið að veðja á makrílveiðar og vinnslu í sumar. Þeir bregðast þannig við því að veiðiheimildir fyrirtækisins duga nú eftir skerðingar á bolfiski einungis til níu og hálfs mánaðar vinnslu í stað 11 mánaða áður. Áform þeirra G. Run manna beinast að því að frysta makrílinn og beita við veiðarnar tveimur togskipum á tvíburatrolli, Hringi SH og Helga SH. Veiðar og vinnsla yrðu frá miðjum júlí til ágústloka þangað til nýtt kvótaár hefst. Af þessum ástæðum hefur sumarleyfum hjá starfsfólki G. Run verið flýtt um mánuð, fram í miðjan júní.
Þetta er frumraun þeirra G Run manna í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Eftir er að úthluta kvóta á veiðarnar. Það verður gert í byrjun næstu viku og þeir G Run menn vonast til að fá úthlutað samtals ríflega þúsund tonnum á bæði skipin. Guðmundur Runólfsson hf. er búinn að fjárfesta fyrir um 40 milljónir í vinnslubúnaði og veiðarfærum til makrílveiðanna.
Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri segir að þetta sér í raun mikil áhætta, bæði sé ekki vitað hve mikinn kvóta skipin fái, en væntanlega verði hann á bilinu 300-750 tonn á hvort skip. Þá felist áhættan líka í því hvort makríllinn gangi á miðin fyrir Vesturlandinu, út af Snæfellsnesi og Breiðafirði. „Við vitum að hann hefur gengið á þau mið og ætlum að sækja hann þangað. Það þýðir ekkert að sitja með hendur í skauti og senda fólkið á atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði. Við erum líka með þessu að freista þess að festa okkur í veiðum og vinnslu á makríl sem er ábatasöm ef vel tekst til,“ segir Guðmundur Smári, en hjá G. Run starfa um 80 manns, þar af eru tæplega fimmtíu við frystihúsið og vinnsluna.