Lokahátíð upplestrarkeppninnar

Hin árlega Lokahátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í grunnskólunum hér á Snæfellsnesi verður haldin miðvikudagskvöldið 10. mars n.k, kl. 20.00 í Grundarfjarðarkirkju.  

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2009/2010.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa í Grundarfjarðarbæ á fiskveiði 2009/2010 á grundvelli reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 82, 29. janúar 2010 og sérstakra úthlutnarreglna sem settar hafa verið fyrir Grundarfjarðarbæ.   Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar, og þar eru ofangreindar reglur einnig aðgengilegar. Umsóknarfrestur er til og með 15. mars 2010. Hér má nálgast auglýsinguna.

Skólahreysti

Nú er skólahreystivika hjá nemendum grunnskólans og föstudaginn 26.febrúar verður sett upp skólahreystibraut í íþróttahúsinu og munu eldri nemendur skólans spreyta sig á henni. Ný líkamsræktartæki sem starfsdeildin smíðaði verða einnig tekin í notkun.   Foreldrum og öllum sem áhuga hafa á er boðið að koma og fylgjast með krökkunum  frá kl. 10.30 og fram að hádegi.   Vonumst til að sjá sem flesta.   Skólastjóri  

Veðurguð heimsækir grunnskólann

Síðastliðinn mánudag kom Ingó, sem  keppti í Idolkeppninni og hefur verið kenndur við hljómsveitina Veðurguðina, í heimsókn í boði foreldrafélags skólans.  Hann heimsótti alla bekkina, spjallaði við þau og söng og spilaði á gítarinn.  Hann vakti almenna hrifningu nemenda sem voru mjög spenntir yfir komu hans. 

Fyrirlestur um Detox

Á þessum fyrirlestri er lögð áhersla á detox (afeitrunar) mataræði og heilsusamlega lifnaðarhætti dags daglega. Kenndar ýmsar aðferðir sem auðvelt er fyrir hvern og einn að tileinka sér og setja inn í sína daglegu rútínu sem stuðlar að því að viðhalda daglegu líkamlegu heilbrigði.  

Framlagning kjörskrár í Grundarfjarðarbæ 2010

27. febrúar 2010. Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram á að fara þ. 6. mars 2010, verður lögð fram skv. ákv. 26. gr. laga nr. 24/2000 með síðari breytingum þ. 27. febrúar 2010. Sjá nánar hér.  

Smábátaskipanám

Til stendur að bjóða upp á hjá Visku, smábátanámskeið sem gefur réttindi á 12 metra skip/báta. Það mun verða kennt í gegnum fjarbúnað fyrir þá sem þurfa. Hér má sjá auglýsingu. 

Landsliðskokkur dæmir í fiskisúpukeppni Northern Wave

Northern Wave hvetur Grundfirðinga til að skrá sig í fiskisúpukeppni hátíðarinnar sem að fer fram laugardaginn 6. mars næstkomandi klukkan 20.00 á fiskmarkaði Grundarfjarðar. 

Grundfirskir atvinnurekendur auka samvinnu

Í myndbandi sem finna má á www.youtube.com, er upplýst að nú safni „Grundfirska mafían“ liði.  Sannleikurinn í málinu er sá að Félag atvinnulífsins í Grundarfirði, vinnur að endurskipulagningu félagsins til að stuðla að gerjun, hugmyndaauðgi, samstarfi og samstöðu meðal atvinnurekenda í Grundarfirði.  Markmiðið er að nýta þau tækifæri sem gefast á breyttum tímum.  Yfirskrift verkefnisins er „Þeir fiska sem róa“ og það er styrkt af Vaxtarsamningi Vesturlands. 

100 Vestlendingar á þjóðfundi um sóknaráætlun

Skessuhorn 22. febrúar 2010: Svipmynd af fundinum. Ljósm. SL.Um hundrað Vestlendingar mættu á þjóðfund sem haldinn var í Borgarnesi á laugardaginn. Fundurinn var liður í fundaröð sem forsætisráðuneytið stendur fyrir og fjallar um Sóknaráætlun 20/20 en í því felst að draga fram styrkleika og sóknarfæri þjóðarinnar og gera tillögur og áætlanir á grunni þeirra. Hrefna B. Jónsdóttir framkvæmdastjóri SSV sá um boðun á fundinn. Hún segir mikla vinnu hafa legið á bak við boðunina, en viðtökur þeirra sem valdir voru með handahófskenndu úrtaki úr þjóðskrá voru fremur dræmar. “Við sendum út 300 bréf samkvæmt úrtaki úr þjóðskrá og það skiluðu sér aðeins 30 af þeim. Við fórum því í að hringja út til að ná því takmarki okkar að fá 80-90 þátttakendur, en grunnurinn var hópur sem var handvalinn auk um 10 starfsmanna ráðuneyta.”