Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í janúar

    Janúar 2007 í samanburði við janúar árin 2005 og 2006 Hér fyrir neðan er aflinn sundurliðaður eftir tegundum. Tegundir 2007   2006   2005   Þorskur 358.746    kg 413.697 Kg 436.460 Kg Ýsa 201.282    kg 147.907 Kg 288.504 Kg Karfi 39.034    kg 41.347 Kg 34.598 Kg Steinbítur 79.274    kg 245.167 Kg 167.126 Kg Ufsi 12.873    kg 21.318 Kg 31.523 Kg Beitukóngur 765    kg 5.525 Kg 29.875 Kg Rækja 0    kg 0 Kg 0 Kg Langa  12.835    kg 1.427 Kg 2.061 Kg Keila 5.892    kg 3.756 Kg 727 Kg Gámafiskur 696.436    kg 632.750 Kg 650.668 Kg Aðrar tegundir  56.684    kg 60.770 Kg 29.696 Kg Samtals 1.463.821    Kg 1.573.664    Kg 1.671.238    KgÞað sem stendur á bak við gámafisk er  að stærstum hluta ýsa,  steinbítur og þorskur.  HG.

Þorrablót leikskólans

  Þorrablót í Leikskólanum Sólvöllum var haldið miðvikudaginn 7. febrúar sl.  Í byrjun var skemmtun í samkomuhúsinu þar sem nemendur skemmtu gestum með leik og söng.  Nemendur hafa verið að kynna sér muni frá fyrri hluta síðustu aldar og voru búin að raða þeim upp til þess að sýna þorrablótsgestum. Nefndu þau þáttinn innlit í liðinn tíma.  Eftir skemmtunina í samkomuhúsinu var öllum boðið upp á þorramat í leikskólanum.  Fjöldi foreldra mætti og tók þátt í Þorrablótinu með börnunum.   Hér má sjá myndir af Þorrablótinu    

Spurning vikunnar

Það voru flestir sem vissu hvaða fjall væri kallað "Sukkertoppen", en rétt svar er Kirkjufell. 182 svöruðu spurningunni og voru 156 eða 85,7% með rétt svar.

Borað á Berserkseyri

                          Nú líður brátt að því að boranir eftir heitu vatni hefjist á Berserkseyri við Grundarfjörð. Verið er að leggja síðustu hönd á undirbúning með því að ljúka við planið sem borinn mun standa á auk þess sem flutningar á bornum og búnaði tengdum honum eru hafnir. Gangi allt að óskum hefst sjálf borunin í næstu viku og mun standa í um fjórar vikur. Það eru Jarðboranir sem sjá um borunina og nota til hennar borinn Sleipni. Óðinn, sem þótti æðstur ása, átti hest með þessu nafni sem hafði átta fætur, var því afar fótfrár og gat flogið að auki. Þessi er nokkuð þungstígari því hann ferðast landleiðina á flutningabílum. 

Álagningu fasteignagjaldanna lokið

Þessa daga eru að berast með póstinum álagningarseðlar fasteignagjaldanna fyrir árið 2007.  Eins og kunnugt er, voru fasteignir í þéttbýli Grundarfjarðar endurmetnar á síðasta ári.  Heildarbreyting á fasteignamatinu varð allnokkur til hækkunar.  Við þessu var brugðist í bæjarstjórninni og álagningarprósentur fasteignaskattsins voru lækkaðar.  Mest var álagningarprósentan lækkuð á íbúðarhúsnæði eða úr 0,45% í 0,34%.  Lóðarleiga var sömuleiðis lækkuð úr 1,5% í 0,8% á íbúðarhúsnæði.  Álagningarprósentur fasteignaskatts og lóðarleigu á atvinnuhúsnæði voru einnig lækkaðar.  Vatnsgjald er lagt á fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og samanstendur af "föstu gjaldi" sem lagt er á alla matshluta íbúðarhúsnæðis (ekki bílskúra) og breytilegu gjaldi sem miðast við fermetrafjölda eigna. 

Borun eftir heitu vatni að hefjast

                                Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur er undirbúningur að borun eftir heitu vatni að komast á lokastig.  Unnið  verður að því að flytja borinn vestur í Kolgrafafjörð í þessari viku.  Verið er að undirbúa borstæðið og vonast er til þess að því verkefni ljúki að miklu leyti í vikunni.  Mikil eftirvænting er eftir niðurstöðum úr boruninni.  Upphaflega var gert ráð fyrir að lagning dreifikerfis yrði hafin um þetta leyti, en það hefur beðið eftir niðurstöðum úr væntanlegri borun.  Gangi væntingar Grundfirðinga eftir, mun lagning dreifikerfis hefjast þegar líður fram á árið og ef til vill verður komið heitt vatn í einhver hús í Grundarfirði á árinu ef vel gengur.   Hér má sjá myndir af framkvæmdum

Safnað verður saman heyrúlluplasti frá bændum þann13. febrúar n.k.

Leiðbeiningar um frágang heyrúlluplasts til endurvinnslu.     Samkvæmt mengunarreglugerð er urðun plasts og brennsla heima á bæjum með öllu óheimil. Íslenska gámafélagið mun þess vegna safna saman plasti frá bændum og koma því í endurvinnslu. Fyrsta ferð mun verða farin þriðjudaginn 13. febrúar næst komandi.    

GSM-væðing á Snæfellsnesi

Eins og kunnugt er hefur Fjarskiptastofnun boðið út styrkingu GSM kefisins á landsbyggðinni.  Verkefnið verður fjármagnað með hluta af "símapeningunum" svokölluðu.  Þetta er afar þakkarvert og jafnframt brýnt verkefni vegna þess að GSM símar eru orðnir helsta öryggistækið í fjarskiptum hjá almennum vegfarendum.  Forgangsröðun í verkefninu vekur að hluta til nokkra athygli.  Snæfellingar þekkja það, að frá Eiði í Grundarfirði að Vegamótum er mjög stopult GSM símasamband og reyndar er útsending RÚV á þessu svæði einnig veik.  Á þessum vegarkafla eru oft mjög erfið veður og geta aðstæður verið varasamar þegar verst stendur á.  Samt sem áður var þessi vegarkafli ekki með í fyrsta útboði þessa verkefnis. 

Rafmagnsleysi á Snæfellsnesi

Rafmagn fór af Snæfellsnesi um kl. 21:30 í gærkvöldi þegar 66 kV flutningslína frá Vatnshömrum í Borgarfirði bilaði, straumlaust var einnig á Skógarströnd og Eyja-, Miklaholts- og Kolbeinsstaðahreppi. Lengsta straumleysið var á hluta af Staðarsveitarlínu og Arnarstapa og Hellnum. Díselvélar voru keyrðar í Stykkishólmi, Grundarfirði og Ólafsvík. Skammta þurfti rafmagn í Grundarfirði, Ólafsvík, Hellissandi og Rifi.  

Þorrablót

42. Þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar verður haldið næstkomandi laugardag. Langar og strangar æfingar hafa átt sér stað hjá góðum hópi fólks sem lagt hefur sig fram við að setja saman skemmtiannál um það helsta sem átt hefur sér stað í Grundarfirði síðasta ár. Ég held að allir sem hafa tekið þátt í þorrablótsnefnd séu mér sammála um að þetta er með því skemmtilegra sem við höfum tekið okkur fyrir hendur.