Samningur um gagnkvæma aðstoð slökkviliða

FRÉTTATILKYNNING Samningur um gagnkvæma aðstoð slökkviliða Í dag, öskudag var undirritaður samningur á milli allra slökkviliða á Vesturlandi á Vatnasafninu í Stykkishólmi. Það eru slökkvilið Stykkishólms og nágrennis, Slökkvilið Grundarfjarðar, Slökkvilið Snæfellsbæjar, Slökkvilið Dalabyggðar, Slökkvilið Reykhólahrepps, Slökkvilið Borgarbyggðar og Slökkvilið Akraneskaupstaðar sem eru aðilar samningsins.   Markmiðið með samningnum er að nýta þau tæki og þann mannafla sem slökkviliðin á Vesturlandi hafa yfir að ráða með gagnkvæmri aðstoð við slökkvistörf ef um meiriháttar eldsvoða eða dreifibruna er að ræða.

Löngu skipulagsferli lokið

Fréttatilkynning frá skipulags- og byggingafulltrúa Grundarfjarðarbæjar   Langþráð tímamót eru staðreynd og er Aðalskipulag Grundarfjarðar 2003 - 2015, dreifbýlishluti, nú staðfest og orðið að veruleika.  Þetta er lokahnykkur í að aðalskipulag fyrir sveitarfélagið í heild sé í gildi.

Kirkjuskólinn fellur niður í dag

Kirkjuskólinn sem átti að vera klukkan 16.15 fellur niður í dag öskudag. 

Baráttufundur um sjávarútvegsmál á Snæfellsnesi

Skessuhorn 17. febrúar 2010: Almennur baráttufundur um sjávarútvegsmál verður í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á fimmtudagskvöldið og hefst klukkan 20:30. Víðtæk samstaða er um boðun fundarins en að honum standa fulltrúar Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar, Stykkishólmsbæjar, Smábátafélagsins Snæfells, Útvegsmannafélags Snæfellsness og Verkalýðsfélags Snæfellinga.  Í tilkynningu segir að kastljósum verði einkum beint að þeim efnahags- og samfélagslegu áhrifum sem ríkjandi óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi hefur. Hún setji mark sitt á fiskvinnslufyrirtækin, fiskvinnslufólk, smábátaútgerðir og yfirleitt allt mannlíf í byggðarlögum á Snæfellsnesi. Þarna vegi þungt hugmyndir um svokallaða fyrningarleið.

Northern Wave í Grundarfirði

frettir@ruv.is  Frétt á vef Ríkisútvarpsins 16. febrúar 2010.   Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í þriðja skiptið í Grundarfirði á Snæfellsnesi helgina 3.-7. mars næstkomandi. Sýnd verða 75 tónlistarmyndbönd og stuttmyndir frá 20 löndum. Í ár var ákveðið að hafa frítt inn á alla viðburði og að fá Grundfirðinga til að taka virkan þátt í hátíðinni. Fiskisúpukeppni verður haldin meðal Grundfirðinga og er sjálfur sóknarpresturinn, Aðalsteinn Þorvaldsson, skráður til leiks. Gestir hátíðarinnar dæma og velja bestu súpuna.  

Myndakvöld Ferðafélags Snæfellsness

Myndakvöld Ferðafélags Snæfellsness verður í Stykkishólmi, 24. Febrúar kl. 20. Á  Ráðhúsloftinu, Hafnargötu 3. Myndir verða sýndar úr göngum síðasta sumars, ásamt áhugaverðum myndum af fjallgarðinum. Aðgangur er ókeypis.  

Aðalfundur UMFG

Aðalfundur Ungmennafélags Grundarfjarðar   Aðalfundur Ungmennfélags Grundarfjarðar verður haldinn sunnudaginn 21.02.2010 á Hótel Framnesi kl. 16.00.  Boðið verður upp á léttar veitingar. Einning viljum við minna á nýja heimasíðu UMFG en hún er komin upp og er í vinnslu. Endilega kíkið á það.   http://umfg.grundo.is          Stjórn Ungmennafélags Grundarfjarðar  

Skref til sjálfshjálpar í lestri og ritun

Fjölbrautaskóla Snæfellinga hefst 22. febrúar, kennt á mán. og fim. kl. 17:30 til 19:40 Megináhersla lögð á að styrkja lestrar- og ritunarhæfni auka hæfni til starfs og áframhaldandi náms áhersla er lögð á að efla lesskilning, lestrarlöngun, úthald við lestur og stafsetningarfærni.Kennd mismunandi tækni, aðferðir og hjálpartæki, s.s. yfirlestrar og leiðréttingarforrit. Námið er metið til allt að 5 eininga í framhaldsskóla. Kennt er í litlum hópum (aðeins 8 komast að á námskeiðinu) Kennslustundir : 60. Verð : 10.000,00 kr.Kennari : Jakob Bragi Hannesson kennari FSN Skráning: í síma: 437-2390 eða í netfang skraning@simenntun.is  

Grundarfjörður í C riðli

Í gær var dregið í riðla í 3 deildinni í Íslandsmóti KSÍ. Grundarfjörður var í pottinum og lenti í C-riðli.   C-Riðill: Augnablik Grundarfjörður KB Léttir Skallagrímur Tindastóll Ýmir 

Fullbókað í gistingu í sumar

Skessuhorn 12. febrúar 2010: Á fundi stýrihóps um stefnumótun í ferðaþjónustu í Grundarfirði, sem haldinn var fyrir stuttu, kom fram að útlit er fyrir aukinn fjölda ferðamanna á komandi sumri. Upplýst var að nú þegar væri fullbókað á gististöðum í júlí og ágúst en á sama tíma í fyrra hafði aðeins verið bókað í 50-60% gistirýma fyrir þá mánuði. Kom fram á fundinum að átak þyrfti til að svara aukinni eftirspurn. Þá kom fram að stýrihópurinn hefur haft samband við veitingastaði á svæðinu og á þeim hefði verið vel tekið í hugmyndir um að efla framboð á hráefni úr Breiðafirði á matseðlana.