frettir@ruv.is 

Frétt á vef Ríkisútvarpsins 16. febrúar 2010.

Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í þriðja skiptið í Grundarfirði á Snæfellsnesi helgina 3.-7. mars næstkomandi. Sýnd verða 75 tónlistarmyndbönd og stuttmyndir frá 20 löndum. Í ár var ákveðið að hafa frítt inn á alla viðburði og að fá Grundfirðinga til að taka virkan þátt í hátíðinni. Fiskisúpukeppni verður haldin meðal Grundfirðinga og er sjálfur sóknarpresturinn, Aðalsteinn Þorvaldsson, skráður til leiks. Gestir hátíðarinnar dæma og velja bestu súpuna.  

Boðið verður uppá ókeypis tónleika með hljómsveitunum Bárujárni, Quadruplos, DLX ATX og DJ Unni Andreu.  Valdís Óskarsdóttir klippari og leikstjóri situr fyrir svörum á laugardeginum og sýnir brot úr nýjustu mynd sinni Kóngavegi 7.  Gestadómari hátíðarinnar í ár er Ragnar Bragason, en með honum í dómnefnd verða Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri og Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld.  Þau hafa verið í dómnefndinni frá upphafi. 

Frekari upplýsingar um hátíðina, gisting og samgöngur má finna á vef hátíðarinnar.