Líklega hálf milljón tonn af síld í Grundarfirði

Skessuhorn 2. mars 2010   Grundarfjörður er nú fullur af síld og bæst hefur í dag frá degi. Heimildir Skessuhorns herma að ef miðað sé við fyrstu þykktarmælingar sé ekki undir hálfri milljón tonn af síld þar núna, sem er athyglisvert í ljósi þess að aðeins hafa verið leyfðar veiðar á 47.000 tonnum síðan í haust. Síldartorfurnar eru mjög þéttar og ná frá botni upp á yfirborðið og síldargangan nær alveg inn í Kolgrafarfjörð. Fuglinn tínir síld af sjónum og háhyrningar elta síldina upp undir fjörur. Ekkert má veiða því kvótinn er búinn og fiskifræðingar hafa haft vara á sér vegna sýkingar í síldinni.

Héraðsþing HSH var haldið í Stykkishólmi

Skessuhorn 2. mars 2010: Dagný og Sesselja voru sæmdar starfsmerki UMFÍ.Um liðna helgi var héraðsþing HSH haldið í Stykkishólmi. Þingið var vel sótt og starfssamt. Gestir þess voru Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ, Sæmundur Runólfsson framkvæmdarstjóri UMFÍ og Sigríður Jónsdóttir framkvæmdarstjórn ÍSÍ.  Dagný Þórisdóttir og Sesselja Pálsdóttir í Snæfelli voru sæmdar starfsmerki UMFÍ og Þorbergur Bæringsson Snæfelli var sæmdur Gullmerki ÍSÍ.  Þingforsetar voru Dagný Þórisdóttir og Hjörleifur K. Hjörleifsson og stýrðu þau þinginu af mikilli röggsemi. Meðal annars voru samþykktar úthlutunarreglur fyrir stjórn vegna styrkja, fækkun þingfulltrúa og sektir vegna seinkunar á skilum í Felix.

Handboltanámskeið

Um næstu helgi 6. – 7. mars mun Bjarni Einarsson verða með annað handboltanámskeið fyrir börn og unglinga. Er þetta sama verð og síðast kr. 500,- fyrir tímann.  

Blaklið kvenna gerir það gott

Síðastliðna helgi hélt blaklið kvenna í Grundarfirði á Hvolsvöll að keppa í 3. deild í blaki.  Var þetta önnur helgin af þremur.  Voru þær  í 3. sæti eftir fyrsta mótið sem haldið var í Mosfellsbæ í október.  En nú gekk allt upp hjá stelpunum. Þær komu sáu og sigruðu, því þær unnu alla sína  leiki sem voru fimm talsins með 2 – 0 og er það frábær árangur.  Munu þær í framhaldinu keppa um 1. – 6. sæti í byrjun apríl og vonum að allt gagni eins vel og smurt og nú um helgina.  Óskum þeim til hamingju með árangurinn.

Lokahátíð upplestrarkeppninnar

Hin árlega Lokahátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í grunnskólunum hér á Snæfellsnesi verður haldin miðvikudagskvöldið 10. mars n.k, kl. 20.00 í Grundarfjarðarkirkju.  

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2009/2010.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa í Grundarfjarðarbæ á fiskveiði 2009/2010 á grundvelli reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 82, 29. janúar 2010 og sérstakra úthlutnarreglna sem settar hafa verið fyrir Grundarfjarðarbæ.   Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna á heimasíðu stofnunarinnar, og þar eru ofangreindar reglur einnig aðgengilegar. Umsóknarfrestur er til og með 15. mars 2010. Hér má nálgast auglýsinguna.

Skólahreysti

Nú er skólahreystivika hjá nemendum grunnskólans og föstudaginn 26.febrúar verður sett upp skólahreystibraut í íþróttahúsinu og munu eldri nemendur skólans spreyta sig á henni. Ný líkamsræktartæki sem starfsdeildin smíðaði verða einnig tekin í notkun.   Foreldrum og öllum sem áhuga hafa á er boðið að koma og fylgjast með krökkunum  frá kl. 10.30 og fram að hádegi.   Vonumst til að sjá sem flesta.   Skólastjóri  

Veðurguð heimsækir grunnskólann

Síðastliðinn mánudag kom Ingó, sem  keppti í Idolkeppninni og hefur verið kenndur við hljómsveitina Veðurguðina, í heimsókn í boði foreldrafélags skólans.  Hann heimsótti alla bekkina, spjallaði við þau og söng og spilaði á gítarinn.  Hann vakti almenna hrifningu nemenda sem voru mjög spenntir yfir komu hans. 

Fyrirlestur um Detox

Á þessum fyrirlestri er lögð áhersla á detox (afeitrunar) mataræði og heilsusamlega lifnaðarhætti dags daglega. Kenndar ýmsar aðferðir sem auðvelt er fyrir hvern og einn að tileinka sér og setja inn í sína daglegu rútínu sem stuðlar að því að viðhalda daglegu líkamlegu heilbrigði.  

Framlagning kjörskrár í Grundarfjarðarbæ 2010

27. febrúar 2010. Kjörskrá vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram á að fara þ. 6. mars 2010, verður lögð fram skv. ákv. 26. gr. laga nr. 24/2000 með síðari breytingum þ. 27. febrúar 2010. Sjá nánar hér.