Síðastliðið sumar hófst vinna við að endurvekja meistaraflokk UMFG í knattspyrnu af löngum dvala en í Grundarfirði hefur ekki verið boðið upp á meistaraflokk síðan 1987. Eftir að Snæfell í Stykkishólmi hætti í vor, þá var enginn möguleiki fyrir menn að leggja stund á alvöru fótbolta, nema sækja æfingar hjá utandeildarliðum fyrir sunnan. Víkingur Ólafsvík spilar á allt öðru og hærra plani, og er meiningin að UMFG geti í framtíðinni stutt við það góða starf sem unnið er í Ólafsvík. Leikmenn hefðu þá tækifæri til að spila alvöru leiki í neðrideildum í stað þess að hætta iðkuninni í kringum bílprófsaldurinn.
Ætlunin er að skrá liðið til leiks á Íslandsmóti KSÍ 2010 og stefnt er að því að leikmannahópurinn telji 25-30 manns svo öruggt sé að það náist í lið yfir sumarleyfismánuðina. Æfingar verða tvisvar í viku í vetur í íþróttahúsi Grundarfjarðar og þjálfaramál eru í skoðun. Leikmenn verða allir áhugamenn og þurfa að standa straum af kostnaði að mestu leiti sjálfir. Meistaraflokksráð mun þó reyna að afla stuðnings til að lágmarka kostnað leikmanna við þátttökuna.
Von okkar er sú að Grundfirðingar og aðrir nær og fjær styðji þétt við bakið á okkur og hvetji okkur duglega, þegar við göngum út á völlinn næsta vor.
Búið er að mynda meistaraflokksráð sem mun halda utan um alla starfsemi liðsins.
Baldur Orri Rafnsson
Kári Pétur Ólafsson
Jón Frímann Eiríksson
Tómas Freyr Kristjánsson
Gústav Alex Gústavsson
Árni Friðjón Árnason