Bæjarhátíðin "Á Góðri Stund" hófst formlega í gær í blíðskaparveðri. Raunar má segja að hátíðin hafi í raun byrjað á fimmtudaginn með skreytingum hverfanna og stórkostlegum tónleikum með stórsveit og Bjarna Ara og Ragga Bjarna þar sem hátt í eitt þúsund manns voru saman komin. Margt var á dagskránni í gær og gestir og heimamenn skemmtu sér hið besta. Örlitlar regnskúrir gerði í gærkvöldi sem þó trufluðu hátíðahöldin lítið. Í morgun vöknuðu hátíðargestir og heimamenn í sólskini og afskaplega fallegu veðri. Dagskráin í dag er bókstaflega yfirfull af skemmtilegum atriðum og hápunkturinn verður í kvöld með skrúðgöngum í litunum fjórum og skemmtun á bryggjunni. Þegar eru hafin víðavangshlaup, útsýnishlaup, dorgveiði og sögustund fyrir börnin og innan skamms hefst súpusala Lions. Mikill fjöldi fólks er þegar kominn á hátíðarsvæðin til þess að njóta og taka þátt í þessum atriðum.