Breyttur opnunartími í sundlauginni

Nú þegar skólinn er byrjaður breytist opnunartími í sundlauginni þannig að opið er virka daga kl. 16-21 og kl. 12-17 um helgar.  

Glæsilegur árangur !

Lið 4.fl karla og kvenna komust í úrslit íslandsmótsins í knattspyrnu. 4. fl ka spilar á Hrafnagilsvelli en UMFG sér um úrslitakeppnina í 4.fl kv. Bæði mótin eru 26. og 27. ágúst. UMFG hvetur alla til þess að mæta á völlinn um helgina og hvetja okkar lið til íslandsmeistaratitils. Úrslit leikja sumarsins ásamt leikjum helgarinnar er hægt að sjá á www.ksi.is

Styrkir úr Æskulýðssjóði 2006

Vakin er athygli á meðfylgjandi auglýsingu sem birtist á vef menntamálaráðuneytisins þann 18. ágúst sl.   Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Æskulýðssjóði samkvæmt reglum nr. 113 frá 22. janúar 2004. Meginhlutverk sjóðsins er að styrkja eftirtalin verkefni:   Sérstök verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra. Ekki eru veittir styrkir til árvissra eða fastra atburða í félagsstarfi, svo sem þinga, móta eða þess háttar atburða né til ferðahópa.Þjálfun æskulýðsleiðtoga og leiðbeinenda til virkrar þátttöku í æskulýðsstarfi, m.a. með námskeiðum og þátttöku í þeim.Nýjungar og tilraunir í félagsstarfi barna og ungmenna.Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka á sviði félagsstarfa.    

Skólasetning Grunnskóla Grundarfjarðar

Skólasetning verður í íþróttahúsinu kl. 17.30 í dag, mánudaginn 21. ágúst. Nemendur eiga að mæta í salinn á svæði sem merkt er þeirra bekk. Eftir skólasetningu fylgja þeir kennara í heimastofur og fá afhenta stundaskrá og bókalista. Þeir foreldrar sem eiga eftir að skrá börn í skólann eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna þau sem allra fyrst hjá ritara eða skólastjóra í síma 430-8550 eða 430-8555. Skráning í heilsdagsskólann er hafin  hjá skólastjóra í síma 430-8555.  Heilsdagsskólinn hefst þriðjudaginn 22. ágúst. Skólastjóri  

Tvöhundruð og tuttugu ár liðin frá því Grundarfjörður fékk kaupstaðaréttindi.

Þann 18. ágúst 1786, fyrir 220 árum síðan, gaf Danakonungur út tilskipun um að sex verslunarstöðum væri veitt kaupstaðaréttindi. Kaupstaðirnir voru Grundarfjörður, Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Kaupstaðirnir sex áttu að verða miðstöðvar verslunar, útgerðarog iðnaðar hver í sínum landshluta. Auk þess áttu þeir að vera aðsetur ýmissa opinberra embættismann og stofnana.

Starfslok skólastjóra Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Í gær, þann 16. ágúst, var haldið kveðjuhóf í tilefni af starfslokum Friðriks Vignis Stefánssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Friðrik hóf störf sem skólastjóri Tónlistarskólans árið 1988 og hefur haft mikil áhrif á tónlistarmenntun og tónlistarlíf í Grundarfirði á þessum 18 árum. Sl. ár hefur hann verið í námssleyfi en hyggst nú róa á önnur mið. Bæjarstjórn Grundarfjarðar færði honum málverk að gjöf með þökk fyrir vel unnin störf og ósk um velfarnað á nýjum vettvangi. Við starfi skólastjóra Tónlistarskólans tekur Þórður Guðmundsson.   Friðrik Vignir og Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar.  

Upplýsingaskilti um Kirkjufell og fugla við Grundarfjörð

  Framkvæmdaráð Snæfellsness hefur látið setja upp tvö upplýsingaskilti vestan við þéttbýli Grundarfjarðar. Annað segir frá  Kirkjufellinu, staðartákni Grundarfjarðar,  og hitt veitir upplýsingar um fugla á svæðinu.  Náttúrustofa Vesturlands annaðist gerð skiltanna með styrk frá Ferðamálaastofu. Framkvæmdaráð Snæfellsnes hefur umjón með vinnu vegna umhverfisvottunar Snæfellsness.  

Leikskólakennari óskast

Við leikskólann Sólvelli vantar leikskólakennara til starfa. Hæfniskröfur: Leikskólakennarmenntun, færni í mannlegum samskiptum, frumkvæði í starfi, jákvæðni og áhugasemi, sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð. Ef ekki fæst leikskólakennari verður ráðinn starfmaður með sambærilega menntun og/eða reynslu með börnum. Umsóknarfrestur er til 24. ágúst. Áhugasamir hafi samband við leikskólastjóra í Leikskólanum eða í síma 438-6645.  

Sprengingar í höfninni í dag

Verið er að vinna að dýpkun í höfninni vegna framkvæmda við nýja Litlu-bryggju. Í dag, um kl. 11, verður klöpp í höfninni sprengd og má búast við því að þorri bæjarbúa verði þess var. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem það kann að valda.

Leikskólinn Sólvellir tekinn til starfa eftir sumarfrí

Leikskólabörn að leik í nýju húsnæði  Leikskólinn Sólvellir tók til starfa aftur eftir sumarfrí í dag, 14. ágúst. Nýbygging leikskólans var jafnframt tekin í notkun í dag. Viðbyggingin er 173 m² að stærð og hýsir m.a. eldhús og starfsmannaaðstöðu. Auk viðbyggingarinnar var elsti hluti húsnæðisins endurbætt og andyri stækkað og endurnýjað. Byggingin er hin glæsilegasta og voru bæði starfsmenn og börn glöð í bragði í dag.