Blóðbankabíllinn á ferðinni

Blóðbankabíllinn verður í Grundarfirði við Esso skálann, miðvikudaginn 20. september frá kl. 10.00 - 13.00. Allir velkomnir. 

Göngur og réttir

Á morgun laugardag verða göngur í Eyrarsveit. Réttað verður að Hömrum og Mýrum að göngum loknum.  

Töf á Vikublaðinu Þey

Töf verður á útgáfu Vikublaðsins Þeys.  Reynt verður að dreifa blaðinu síðar í dag eða í síðasta lagi á morgun, föstudag.  

Kveldúlfur

Fundur verður haldinn í Eyrbyggju-sögumiðstöð, fimmtudagskvöldið 14. september, kl. 20.30. Til umræðu verður hin sígilda kafbáta-spennumynd Das Boot frá árinu 1981 eftir Wolfgang Petersen.    

Skólastarf í Grunnskóla Grundarfjarðar

Í Grunnskóla Grundarfjarðar eru nú 175 nemendur í 10 bekkjardeildum en stærri hópum er skipt eftir þörfum. Alls 34 starfsmenn starfa við skólann í vetur, 22 kennarar og 12 aðrir starfsmenn (s.s. stuðningsfulltrúar, skólaliðar, ritari, þroskaþjálfi, starfsmaður bókasafns og skólastjóri). Þann 1. nóvember nk. byrjar starfsdeild fyrir nemendur í 9.-10. bekk. Þar verða nemendur sem hneigjast fremur til verknáms en bóknáms en ákveðnar forsendur þurfa að liggja fyrir til þess að fá aðgang að starfsdeild.  

Kennsla í Tónlistarskóla Grundarfjarðar hafin

Kennsla í Tónlistarskóla Grundarfjarðar hófst mánudaginn 4. sept sl. Í skólanum eru um 115 nemendur og enn eru nokkrir á biðlista. Kennslugreinar eru þær sömu og í fyrra, 16 talsins. Flestir nemendur stunda nám á píanó og gítar en vaxandi áhugi er fyrir slagverki og þverflautu. Kennarar eru þeir sömu og í fyrra; Þórður Guðmundsson, skólastjóri, Ari Einarsson, Alexandra Shukova og Baldur Orri Rafnsson. Í vetur er stefnt að því að stofna sérstaka skólahljómsveit þar sem valið verður í hverja stöðu. 

Skólastarf fer vel af stað í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Skólastarf í Fjölbrautaskóla Snæfellinga er nú komið á fullt skrið. Um 260 nemendur eru skráðir í skólann, en þar af eru tuttugu nemendur úr grunnskólum á svæðinu sem stunda nám í einum eða tveimur áföngum og rúmlega tuttugu vélstjórnarnemendur sem stunda vélavarðanám. Síðan er stór hópur eldri nemenda, eða um 60 nemendur, sem stundar hlutanám í skólanum. Stærsti hópurinn er þó nemendur á framhaldsskólaaldri sem stundar fullt nám í skólanum.  

Bæjarstjórnarfundur

verður haldinn fimmtud. 14. september 2006 kl. 17.00 í samkomuhúsinu. Á dagskrá eru meðal annars fundargerðir nefnda og ráða, rekstraryfirlit og skil á staðgreiðslu jan-ágúst, heimild til hækkunar á yfirdráttarheimild, heimild til auglýsingar á tillögum að deiliskipulagi nýrra íbúðahverfa, tilboð í meðhöndlun og förgun sorps, kosning fulltrúa á aðalfund SSV, erindi frá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og ýmis gögn til kynningar. Fundurinn er öllum opinn. Bæjarstjóri 

Nýbygging Leikskólans Sólvalla vígð

Í gær, fimmtudaginn 7. september, var nýbygging Leikskólans Sólvalla vígð formlega. Í tilefni dagsins var opið hús í leikskólanum þar sem gestir gátu skoðað glæsilegu húsakynnin og þegið kaffiveitingar. Sr. Elínborg Sturludóttir sóknarprestur blessaði húsið. Í leikskólanum eru í dag 42 nemendur, 15 drengir og 27. stúlkur. 6 leikskólakennarar eru starfandi, 4 leiðbeinendur, 1 leikskólaliði og einn matráður.   Fimm af sex leikskólastjórum frá upphafi, f.v. Guðbjörg Guðmundsdóttir, Hjördís Vilhjálmsdóttir, Matthildur Guðmundsdóttir, Eydís Lúðvíksdóttir og Sigríður Herdís Pálsdóttir núverandi leikskólastjóri. Á myndina vantar Rebekku Jónsdóttur.  

Nýr forstöðumaður Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

  Albert Eymundsson fyrrum skólastjóri og bæjarstjóri á Hornafirði hefur verið ráðinn forstöðumaður Félags- og skólaþjónsutu Snæfellinga. Sigþrúður Guðmundóttir sem gengt hefur starfinu frá stofnun þjónustunnar lætur jafnframt af störfum.